Hrollkaldur laugardagsmorgunn

Það verður kalt á landinu öllu næstu daga.
Það verður kalt á landinu öllu næstu daga. mbl.is/​Hari

„Ef til vill er þörf á kuldaviðvörun þar sem dúða þarf leikskólabörn sérstaklega á fimmtudag og föstudag (kalt fram á laugardag) og aðrir úti við hugi að skjólgóðu höfuðfati og hlýjum vetrarskóm. Ullarvetlingar koma líka í góðar þarfir.“

Þetta kemur fram á veðurvefnum Bliku. Spár gera ráð fyrir því að á höfuðborgarsvæðinu verði á morgun og föstudag 6 til 7 stiga frost og vindur um 10 m/s. 

Þar segir enn fremur að 7 stiga frost með 10 m/s vindkælingu jafngildi nærri 16 stiga frosti. Því þurfi líklega að fara aftur til kuldakasts í byrjun desember 2013 til að finna eitthvað sambærilegt. 

Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að það sjáist almennilegar kuldatölur á höfuðborgarsvæðinu á laugardagsmorgun þegar fólk gæti vaknað við 15 stiga frost. 

„Þegar vindurinn dettur niður kemur kuldinn,“ segir Þorsteinn og segir svona mikið frost ekki algengt á höfuðborgarsvæðinu. 

Kuldakastið skýrist af köldu heimskautalofti sem kemur yfir landið næstu daga. „Það eru kaldir dagar fram undan og frost á öllu landinu. Það fer niður í 15 stig á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Þorsteinn og bætir við að kaldast verði í innsveitum á Norðausturlandi. Þar gæti orðið allt að 20 stiga frost um helgina. 

Þorsteinn segir að áfram verði kalt norðan heiða fram á þriðjudag en heldur dragi úr frosti á höfuðborgarsvæðinu frá miðjum laugardegi.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert