Lampard væri kannski enn hér ef ég hefði skorað meira

Timo Werner í leik með Chelsea á tímabilinu.
Timo Werner í leik með Chelsea á tímabilinu. AFP

Timo Werner, sóknarmaður Chelsea, viðurkennir að hann sé sakbitinn yfir brottrekstri Franks Lampards í síðasta mánuði. Werner gekk illa að skora um langt skeið og finnst því sem hann eigi sök að máli.

„Þegar maður kemur hingað til þess að spila frammi og vera maðurinn til þess að skora mörkin þá fann ég auðvitað fyrir sektarkennd yfir því að hafa klúðrað svona mörgum færum.

Ég var svekktur fyrir hönd félagsins, fyrir hönd gamla knattspyrnustjórans en einnig fyrir mína eigin hönd þar sem ég vil alltaf skora eins mikið og ég mögulega get,“ sagði Werner í samtali við Sky Sports.

Hann skoraði ekki í 12 leikjum í röð í öllum keppnum undir lok síðasta árs.

„Ef ég hefði skorað fjórum eða fimm mörkum meira væri gamli knattspyrnustjórinn kannski ennþá hérna þar sem við hefðum kannski unnið tveimur eða þremur leikjum meira en maður getur ekki velt sér of mikið upp úr fortíðinni þar sem það er gífurlegur fjöldi leikja fram undan.

Fortíðin var svona og auðvitað er ég svolítið sakbitinn, en svona er þetta í fótbolta og maður verður að halda áfram, sérstaklega þegar það er kominn nýr knattspyrnustjóri,“ bætti Werner við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert