Guðlaugur sækist eftir 1. sæti

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, sækist eftir 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Fulltrúaráð Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík ákvað á fundi í gær að efna til prófkjörs við val á framboðslistum flokksins og fer það fram dagana 4.-5. júní næstkomandi.

„Ég fagna mjög þeirri ákvörðun fulltrúaráðsins að efna til prófkjörs, það er hraustleikamerki á lýðræðislegum stjórnmálaflokki að láta val á frambjóðendum í hendur almennum flokksmönnum. Það er háttur Sjálfstæðisflokksins og lýsandi fyrir þá fjöldahreyfingu sem flokkurinn er,“ segir Guðlaugur Þór í fréttatilkynningu.

Guðlaugur Þór hefur verið þingmaður Reykvíkinga síðan 2003 og í forystusæti fyrir Sjálfstæðismenn á yfirstandandi kjörtímabili. Hann hefur gegnt embætti utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra frá 11. janúar 2017 en var áður heilbrigðisráðherra á árunum 2007-2009.

„Það hefur verið mér heiður að veita Sjálfstæðismönnum í Reykjavík forystu á þessu kjörtímabili sem fyrsti þingmaður Reykjavíkur. Margt hefur áunnist við krefjandi aðstæður og enn er verk að vinna,“ segir Guðlaugur Þór ennfremur í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert