Handteknir mótmælendur hafi sætt pyntingum

Mótmælendur lýsa hryllilegu ofbeldi lögreglu og fangavarða.
Mótmælendur lýsa hryllilegu ofbeldi lögreglu og fangavarða. Ljósmynd/Twitter

Eftir að yfirvöld í Hvíta-Rússlandi hófu að sleppa þeim þúsundum einstaklinga, sem voru handteknir í mótmælum eftir forsetakosningarnar að þar í landi, kom í ljós að margir þeirra voru með mikla áverka eftir dvöl í fangaklefum. Amnesty International hefur sakað lögregluna um hrottaskap og pyntingar.

Al­ex­and­er Lúka­sj­en­kó var yfirlýstur sigurvegari í forsetakosningum 10. ágúst og var þá ljóst að hann myndi halda setu sinni á forsetastóli áfram. Lúka­sj­en­kó, sem stundum er kallaður síðasti einræðisherra Evrópu, er fyrsti og eini forseti landsins og hefur verið í 26 ár.

Úrslitum forsetakosninganna hefur verið mótmælt síðan þau voru kunngerð og þau sögð fölsuð. Evrópusambandið og Bandaríkin hafa lýst kosningunum sem hvorki frjálsum né sanngjörnum. Mótframbjóðandi Lúkasjenkó, Svetl­ana Ts­íkanovskaja, hefur lýst sig raunverulegan sigurvegara kosninganna en hefur síðan flúið til Litháen.

Minnst tveir mótmælendur eru látnir og um 6.700 hafa verið handteknir síðan mótmælin hófust.

Teknir úr fötunum, barðir og hótað nauðgunum

Í yfirlýsingu í ríkissjónvarpi sagði forseti þingsins, Natalya Kochanova, að forsetinn hefði kallað eftir rannsókn á handtökunum og að fleiri en eitt þúsund hefðu verið frelsaðir. Til stendur að frelsa alla aðra í dag sagði undir-innanríkisráðherrann, Alexander Barsukov, en neitaði fyrir lögregluofbeldi.

BBC sem greinir frá ræddi við marga, þar á meðal táninga, sem lýstu ofbeldinu: „Þeir börðu fólk grimmilega, án viðurlaga, og þeir handtaka alla. Við vorum neydd til að standa úti í alla nótt. Við þá berja konu. Í skil ekki þessa grimmd,“ sagði einn maður á meðan hann sýndi fréttamanni BBC áverka sína.

Samtökin Amnesty International segja að handteknir mótmælendur hafi lýst því hvernig þeir voru teknir úr öllum fötunum, barðir og hótað nauðgunum. Fangageymslur eru sagðar vera orðnar að pyntingarklefum.

Maður sýnir áverka sem hann hlaut í haldi lögreglu.
Maður sýnir áverka sem hann hlaut í haldi lögreglu. Ljósmynd/BBC

Evrópusambandið kallar eftir refsiaðgerðum

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, kallaði í morgun eftir refsiaðgerðum gegn þeim sem „brjóta gegn lýðræðislegum gildum og traðka á mannréttindum“ í Hvíta-Rússlandi.

„Ég er viss um að fundur utanríkisráðherra Evrópusambandsríkja í dag muni leiða í ljós stuðning við grunnréttindi og frelsi íbúa Hvíta-Rússlands,“ tísti hún. Fjarfundur utanríkisráðherranna fer fram síðar í dag.

Ekki leið á löngu þangað til að þýsk stjórnvöld tóku undir kröfu von der Leyen um refsiaðgerðir vegna „óásættanlegrar“ meðferðar á mótmælendum. Talsmaður þýskra stjórnvalda, Steffen Seiber, sagði Angelu Merkel hafa verið „hneykslaða“ yfir handtökum og misþyrmingu friðsamlegra mótmælenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert