Hótar að reka tíu sendiherra úr landi

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. AFP

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur hótað að reka sendiherra Bandaríkjanna, Þýskalands og átta annarra vestrænna ríkja úr landi eftir að þeir fordæmdu gæsluvarðhald á stjórnarandstöðuleiðtoganum Osman Kavala.

Osman Kavala er 64 ára og fæddur í París og hefur setið í fangelsi án dóms síðan árið 2017. Fangelsisvist hans er talin tákn um vaxandi óþol Erdogans gagnvart pólitískum andstæðingum. 

Sendiherrarnir tíu sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu á mánudag þar sem þeir segja að áframhaldandi varðhald yfir Kavala „varpi skugga“ á Tyrkland.

„Ég sagði við utanríkisráðherra okkar að við getum ekki haft þann munað að hýsa þá í okkar landi,“ sagði Erdogan við blaðamenn í ummælum sem tyrkneskir fjölmiðlar birtu í dag. 

Kavala hefur verið gefið að sök að tengjast ýmsum mótælum gegn stjórnvöldum árið 2013 og misheppnuðu valdaráni hersins árið 2016.

Í yfirlýsingu sendiherranna hvöttu Bandaríkin, Þýskaland, Kanada, Danmörk, Finnland, Frakkland, Holland, Nýja Sjáland, Noregur og Svíþjóð til „réttlátrar og skjótrar úrlausnar í máli [Kavala]“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert