Putellas fékk Gullboltann

Alexia Putellas með verðlaunin í París í kvöld.
Alexia Putellas með verðlaunin í París í kvöld. AFP

Spænska knattspyrnukonan Alexia Putellas var rétt í þessu útnefnd besta knattspyrnukona heims 2021 af France Football og fékk afhentan Gullboltann, Ballon D'Or, á hátíð sem nú stendur yfir í París.

Putellas, sem er 27 ára gömul, var í aðalhlutverki hjá Barcelona í vor þegar félagið varð Evrópumeistari í fyrsta skipti.

Hún er þriðja konan sem fær Gullboltann. Ada Hegerberg frá Noregi varð sú fyrsta árið 2018 og Megan Rapinoe frá Bandaríkjunum önnur árið 2019 en kjörið féll niður árið 2020 vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

Jenni Hermoso, landa hennar og samherji hjá Barcelona, varð önnur, Ástralinn Sam Kerr hjá Chelsea þriðja og Hollendingarnir Vivianne Miedema hjá Arsenal og Lieke Martens hjá Barcelona urðu í fjórða og fimmta sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert