Dæmdur fyrir brot gegn blygðunarsemi

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur mbl.is/Þór

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn blygðunarsemi og til greiðslu miskabóta upp á 350 þúsund krónur.

Brotið átti sér stað laugardagskvöldið 1. júní árið 2019 í Reykjavík. Þá birti maðurinn, án samþykkis, kynferðislega mynd af konu á vefsíðu ásamt nafni hennar og upplýsingum um notendanafn hennar á samfélagsmiðlinum Snapchat. Með háttsemi sinni særði hann blygðunarsemi konunnar.

Konan tilkynnti málið til lögreglu 25. júní 2019. Haft er eftir henni í frumskýrslu að árið 2016 hefði hún sent ákærða nektarmynd af sér. Hann óskaði eftir því að fá að taka skjáskot af myndinni en hún bað hann um að gera það ekki. Hún sagðist undanfarið hafa fengið fjölda skilaboða frá mönnum sem hún þekkti ekki sem báðu hana um að senda sér nektarmyndir. Hún hafi farið inn á vefsíðu þar sem hún fann myndina af sér sem hún sendi ákærða árið 2016, merkta með nafni hennar.

Ákærði neitaði sök. Hann kannaðist við að hafa verið í samskiptum við konuna á Snapchat en ekki hafa móttekið umrædda mynd og birt á vefsíðunni.

Konan fór fram á 1,5 milljónir króna í miskabætur en þess í stað var maðurinn dæmdur til að greiða henni 350 þúsund krónur. Hann var einnig dæmdur til að greiða allan sakarkostnað, rúmar 1,6 milljónir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert