Einar segir menn þurfa að gæta orða sinna

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, telur öfga í íslenskri stjórnmálaumræðu vera vandamál sem þarf að leysa. Hann segir samvinnuhugsjón vera hugtak sem Framsókn hefur lengi stuðst við og því þurfi að beita til að vinna gegn skautaðri umræðu.

„Við sjáum að lýðræðiskerfin eru að tætast upp út af þessari pólaríseringu. Stjórnmálamenn verða að mínu viti að axla þá ábyrgð að temja sér hófsemi í því hvernig þeir tala saman og líta á það sem pólitískt hugrekki að vinna saman frekar heldur en pólitískt hugrekki að slá í andstæðinginn,“ segir Einar þar sem hann var gestur í kosningaþætti Dagmála.

Spurður út í stóryrði sem formaður Framsóknarflokksins lét falla á á Búnaðarþingi, segir Einar að menn þurfi að gæta orða sinna. Þótti honum gott að sjá að formaðurinn baðst afsökunar og lauk málinu í sátt.

Hægt er að sjá kappræður oddvita framboðslista í Reykjavík í fullri lengd í kosningaþætti Dagmála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka