Slitu orð Kristrúnar úr samhengi

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýleg færsla Uppreisnar, ungliðahreyfingar Viðreisnar, á samfélagsmiðlinum Facebook hefur vakið nokkra athygli. Er þar vitnað í stefnuræðu Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar, frá því í fyrra og snúa ummælin að Evrópusambandinu (ESB). Þau orð sem ungliðar Viðreisnar velja úr stefnuræðunni er þó ekki það sem fangar athygli fólks heldur þau orð sem ungliðarnir kjósa að sleppa. Slíta þannig setningu formannsins úr öllu samhengi.

Samkvæmt ungliðahreyfingu Viðreisnar sagði formaður Samfylkingar eftirfarandi:

„En undir minni forystu mun Samfylkingin ekki reyna að selja fólki Evrópusambandið“. Er þessu slegið upp sem fullmótaðri setningu og fyrir ofan færsluna skrifar Facebook-aðgangur Uppreisnar: „Evrópumálin eru aftur í umræðunni. Viðreisn er eini flokkurinn sem er með þau á dagskrá“. Færslunni er svo lokað með fána ESB.

Þessi mynd birtist á facebook-síðu Uppreisnar, ungliðahreyfingar Viðreisnar. Þar eru …
Þessi mynd birtist á facebook-síðu Uppreisnar, ungliðahreyfingar Viðreisnar. Þar eru orð Kristrúnar tekin úr samhengi. Mynd/Viðreisn

Þegar stefnuræðan er skoðuð sést fljótt að þau orð sem ungliðahreyfing Viðreisnar slær upp eru slitin úr samhengi. Sagði Kristrún Frostadóttir eftirfarandi í ræðu sinni:

„En undir minni forystu mun Samfylkingin ekki reyna að selja fólki Evrópusambandið sem töfralausn. Enda er það ekki töfralausn. Það hefur bæði kosti og galla. Og það er mikilvægt að Samfylkingin sýni ólíkum sjónarmiðum og áhyggjum fólks virðingu. Það er vel hægt að vera jafnaðarmaður og hluti af Samfylkingunni án þess að vera sannfærður um ágæti aðildar Íslands að Evrópusambandinu.“ 

Féllu ofangreind orð í beinu framhaldi af eftirfarandi setningum:

„Ég er sjálf mikill Evrópusinni. Ég er eindregið fylgjandi aðild Íslands að Evrópusambandinu. Fyrir því ýmsar veigamiklar ástæður og alls ekki allar af efnahagslegum toga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert