Konan sem sögð er hafa sent Trump eitur

Pascale Ferrier er 53 ára gömul og er forritari.
Pascale Ferrier er 53 ára gömul og er forritari. Ljósmynd/Hidalgo County Sherriff's Office

Kanadísk kona hefur verið kærð fyrir að hafa sent bréf með banvænu eitri til Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. Konan heitir Pascale Ferrier, og býr í Quebec í Kanada. Hún var handtekin við landamæri Bandaríkjanna og er sögð hafa verið vopnuð byssu.

Ferrier hefur neitað öllum sakargiftum. 

Bréfið sem henni er gefið að sök að hafa sent í síðustu viku uppgötvaðist áður en það barst til Hvíta hússins. Í bréfinu kallaði hún eftir því að Trump hætti við framboð sitt í næstu forsetakosningum sem fram fara í nóvember. Í umslagin sem bréfið var í var eitrið rísín.

„Gefstu upp og dragðu framboð þitt til baka“

„Ég fann nafn fyrir þig: „Ljóti ofríkistrúðurinn“,“ var skrifað í bréfið, að því er fram kemur í dómsskjölum alríkislögreglunnar FBI. 

„Ég vona að þér líki það. Þú skemmir Bandaríkin og leiðir þau til glötunar. Ég á bandaríkst frændfólk sem vill ekki að þú verðir forseti næstu fjögur árin. Gefstu upp og dragðu framboð þitt til baka.“

Bréfið, sem FBI segir að fingraför Ferrier hafi fundist á, vísaði til eitursins sem „sérstakrar gjafar“ og var skrifað um eitrið: „Ef það virkar ekki skal ég finna betri uppskrift fyrir annað eitur, eða ég gæti notað byssuna mína þegar mér er kleift að koma.“

53 ára gömul og forritari

Hin grunaða gæti líka hafa sent rísín til fimm annarra í Texas, þar á meðal til fangelsis og skrifstofu sýslumanns. 

Ferrier kom fyrir alríkisdómsstól seinni partinn í dag og naut aðstoðar frönskumælandi túlks. 

Ferrier er 53 ára gamal forritari. Hún er upphaflega frá Frakklandi en varð kanadískur ríkisborgari árið 2015. Í mars árið 2019 var hún handtekin í Texas fyrir að bera skotvopn án leyfis og nota falsað ökuskírteini. Hún var send úr landi í kjölfarið.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert