Breiðablik skoraði sex

Tiffany McCarthy og Sóley María Steinarsdóttir eigast við.
Tiffany McCarthy og Sóley María Steinarsdóttir eigast við. mbl.is/Arnþór

Breiðablik sigraði Þrótt úr Reykjavík 6:1 í lokaleik liðanna í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta þetta sumarið. Aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru ekki sérlega góðar og lék vindurinn afar stórt hlutverk í þessum leik á Kópavogsvelli í dag.

Fyrstu mínútur leiksins fóru í það hjá leikmönnum beggja liða að reyna að ná stjórn á boltanum í þessu veðri en því miður var það oft á tíðum ansi erfitt. Leikmenn Breiðabliks gekk þó betur að senda boltann sín á milli án þess að skapa sér alvöru tækifæri. En á 16. mínútu tók Hafrún Rakel Halldórsdóttir, leikmaður Breiðabliks, sig til og tók góðan sprett á vinsti kantinum og fór framhjá nokkrum leikmönnum Þróttar í leiðinni og var allt í einu komin inn í teig Þróttar og setti boltann smekklega í fjærhornið og kom heimamönnum yfir 1:0.

Breiðablik hélt áfram að sækja eftir þetta en þær voru að fá töluvert af hornspyrnum í fyrri hálfleik en það var ekki mikið að koma út úr þeim. Þróttur fékk tvö góð færi í fyrri hálfleik en þau komu bæði eftir mistök í vörn Breiðabliks en þær sluppu með skrekkinn. Fyrst átti Katherine Cousins skot yfir og svo var það Hildur Egilsdóttir sem setti boltann framhjá í fínu færi.

Á lokamínútunni í fyrri hálfleik átti Agla María góðan sprett á vinstri kantinum og náði hún góðri sendingu fyrir mark Þróttar og þar var Tiffany McCarthy mætt og hún þurfti bara að setja boltann yfir línuna. Þróttur tók miðju og strax flautaði Guðmundur Páll Friðbertsson, dómari leiksins, til hálfleiks.

Í seinni hálfleik héldu liðin áfram að berjast við hvort annað og veðrið auðvitað. Leikmenn Breiðabliks voru þó mun sprækari og gekk betur að spila boltanum sín á milli. Á 53. mínútu skoraði Vigdís Lilja Kristjánsdóttir eftir mjög góða sendingu frá Öglu Maríu og svo á 66. mínútu skoraði Birta Georgsdóttir en hún fylgdi þá eftir skoti sem Agla María tók og Íris Dögg varði út í teiginn. Ólöf Sigríður Kristinsdóttir minnkaði muninn fyrir Þrótt á 74. mínútu leiksins en lengra komust þær ekki og það voru leikmenn Breiðabliks sem áttu lokaorðið en þar var á ferðinni Agla María Albertsdóttir en hún kórónaði frábæran leik með góðu marki á 82. mínutu. Svo bætti Hildur Antonsdóttir við sjötta markinu á 89. mínútu og sannfærandi 6:1 sigur Breiðabliks staðreynd.

Fyrir leikinn var það ljóst að Breiðablik myndi enda í öðru sæti deildarinnar og Þróttur í því þriðja. Breiðablik endar þetta tímabil níu stigum á eftir Íslandsmeisturum Vals. Þróttur endar svo sjö stigum á eftir liði Breiðabliks. En þess má geta að þessi lið mætast aftur föstudaginn 1. október næstkomandi en þá er það úrslitaleikurinn í Mjólkurbikar kvenna í knattspyrnu.

Breiðablik 6:1 Þróttur R. opna loka
90. mín. Leik lokið Lokatölur hér í Kópavogi eru 6:1 fyrir Breiðablik. Sannfærandi sigur hjá Blikum. Þessi lið mætast aftur 1. október næstkomandi en þá er það úrslitaleikurinn í Mjólkurbikar kvenna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert