Eiginkona eiturlyfjabaróns handtekin

Emma Coronel Aispuro.
Emma Coronel Aispuro. AFP

Emma Coronel Aispuro, eiginkona eiturlyfjabarónsins Joaquín „El Chapo“ Guzmán og fyrrverandi fegurðardrottning, hefur verið handtekin í Bandaríkjunum, grunuð um eiturlyfjasmygl. BBC greinir frá. 

Hún er ákærð fyrir þátttöku í samsæri um dreifingu kókaíns, metamfetamíns, heróíns og marijúana. 

Hún er auk þess sökuð um að hafa, ásamt öðrum, hjálpað eiginmanni sínum að flýja úr fangelsi í Mexíkó árið 2015, en Guzmán afplánar nú lífstíðarfangelsisdóm í New York fyrir eiturlyfjasölu og peningaþvætti. 

Guzmán slapp úr fangelsinu í Mexíkó árið 2015 með hjálp sona sinna og sérhannaðs mótorhjóls sem hann fór á í gegnum jarðgöng sem grafin voru með hjálp GPS-tækis sem smyglað hafði verið inn í fangelsið. 

Í dómsskjölum segir einnig að Coronel Aispuro hafi tekið þátt í að skipuleggja annan fangelsisflótta fyrir eiginmann sinn áður en hann var framseldur til Bandaríkjanna í janúar 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert