Íslenski boltinn

Fyrsta umferðin öll á gervigrasi

Sindri Sverrisson skrifar
Boltinn í Pepsi Max-deild karla byrjar ekki að rúlla á grasi fyrr en í 2. umferð  þegar KR á heimaleik, gegn KA. 
Boltinn í Pepsi Max-deild karla byrjar ekki að rúlla á grasi fyrr en í 2. umferð  þegar KR á heimaleik, gegn KA.  Foto: Hulda Margrét Óladóttir

Helmingur liðanna tólf í Pepsi Max-deild karla í fótbolta leikur heimaleiki sína á gervigrasi og eiga þau öll heimaleik í fyrstu umferð deildarinnar sem leikin verður um komandi mánaðamót.

Valur og ÍA ríða á vaðið á gervigrasinu að Hlíðarenda föstudagskvöldið 30. apríl. HK tekur á móti KA inni í Kórnum degi síðar, Fylkir mætir þá FH á gervigrasinu í Árbæ og Stjarnan tekur á móti Leikni R. á gervigrasinu í Garðabæ.

Sunnudaginn 2. maí tekur svo Breiðablik á móti KR á gervigrasinu í Kópavogi og Víkingur R. mætir Keflavík á gervigrasinu í Víkinni.

Fyrsti leikurinn á grasvelli verður í 2. umferð þegar KR tekur á móti KA, 7. maí, á Meistaravöllum. Í þeirri umferð verður einnig leikið á grasi á Akranesi, í Breiðholti, Hafnarfirði og Keflavík.

Leikið verður þétt fyrstu fjórar vikur mótsins, fram að landsleikjahléi um mánaðamótin maí-júní, eða alls sjö umferðir. Athygli vekur að HK leikur fimm heimaleiki á þeim tíma, í hlýjunni inni í Kórnum, á meðan að önnur lið leika 3-4 heimaleiki hvert.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×