Mikilvægt að fátækir verði bólusettir

Frans páfi.
Frans páfi. AFP

Frans páfi sagði það vera mikilvægt að fátækir yrðu líka bólusettir gegn kórónuveirunni í páskadagspredikun sinni í dag. Hann sagði bóluefni vera mikilvægt tól í baráttunni við heimsfaraldurinn og hvatti fólk til að halda í vonina. 

Fámennt var í páskamessunni í Péturskirkju í Vatíkaninu í morgun. Páfi beindi ávarpi sínu til þeirra sem minnst mega sín í heiminum, þeirra veiku, þeirra sem eru á flótta, þeirra sem búa á stríðshrjáðum svæðum og þeirra sem búa við fjárhagslegan skort. 

„Faraldurinn er enn í útbreiðslu og hin félagslega og efnahagslega kreppa er alvarleg, sérstaklega fyrir þá fátæku. Bóluefni er mikilvægt tól í þessari baráttu,“ sagði Frans páfi og bætti við að dreifing bóluefna til fátækari ríkja heimsins væri mikilvæg. 

Í gær tók þriggja daga útgöngubann gildi á Ítalíu til þess að koma í veg fyrir fjölgun smita um páskana. Ítalía er á barmi þriðju bylgju faraldursins en þar greinast um 20 þúsund smit daglega. Allt landið er skilgreint sem „rautt land“. Allir veitingastaðir og verslanir sem ekki selja nauðsynjavörur eru lokuð alla páskana.

Allt stefnir í að apríl verði mikilvægur mánuður í baráttunni við faraldurinn á Ítalíu. Stjórnvöld stefna að því að gefa um 300 þúsund skammta af bóluefni á hverjum degi innan tveggja vikna. 

Þrjú svæði innan Ítalíu stefna á tilslakanir í sóttvarnaaðgerðum á þriðjudag og ef allt gengur eftir verða þau svæði skilgreind sem appelsínugul svæði, ekki rauð. 

Fámennt var í messu í Péturskirkju í morgun.
Fámennt var í messu í Péturskirkju í morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert