Bjarki Már og félagar stöðvuðu toppliðið

Bjarki Már Elísson
Bjarki Már Elísson AFP

Bjarki Már Elísson skoraði fimm mörk fyrir Lemgo sem gerði 27:27-jafntefli gegn toppliði Flensburg í þýsku 1. deildinni í handknattleik í kvöld. Alexander Petersson er meiddur og var því ekki með Flensburg.

Flensburg var búið að vinna sjö leiki í röð fyrir viðureign dagsins. Bjarki skoraði sem fyrr segir fimm mörk fyrir Lemgo sem situr í 12. sæti með 16 stig, 14 stigum á eftir Flensburg sem hefur enn fimm stiga forystu á RN Löwen. Ýmir Örn Gíslason skoraði eitt mark fyrir Löwen sem vann 29:23-sigur á Füchse Berlín.

Þá gerðu Kiel og Magdeburg 24:24-jafntefli í spennuleik. Ómar Ingi Magnússon skoraði fimm mörk fyrir Magdeburg og Gísli Þorgeir Kristjánsson eitt, en liðið er í fimmta sæti með 22 stig. Arnór Þór Gunnarsson skoraði eitt mark fyrir Bergischer sem vann 30:22-sigur á Balingen en Oddur Gretarsson skoraði fimm mörk fyrir gestina.

Þá vann Gummersbach 31:29-sigur á Lübeck-Schwartau í þýsku B-deildinni. Elliði Snær Viðarsson skoraði sex mörk fyrir Gummersbach en Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar liðið sem er í öðru sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Hamburg en á leik til góða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert