Íslendingar eiga að geta farið í sund í vondu veðri

Guðlaugur Þór á vorfundi Landsnets.
Guðlaugur Þór á vorfundi Landsnets. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umhverfisráðherra segir þörf á að auka framleiðslu á heitu vatni í Reykjavík hratt á næstu árum. Þá þurfi Ísland að standa framarlega í loftslagsmálum enda sé ávinningur mikill og mikill meirihluti ferðamanna komi til þess að sjá ósnortna náttúru.

Vorfundur Landsnets er haldinn í dag í Hörpu en fundurinn ber yfirskriftina „Fjúka orkuskiptin á haf út.“ Guðlaugur Þór Þórðarson Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra flutti opnunarávarp fundarins.

Í ávarpi sínu lagði ráðherra áherslu á græna orku, loftslagsmál og mikilvægi náttúrunnar í ferðaþjónustu. Þá ræddi hann einnig stækkun virkjana og aukna orkuþörf á næstu árum.

„Við erum auðvitað með þessi mjög metnaðarfullu markmið sem fólki finnst annars staðar í heiminum, ekki merkileg, út af þeirri stöðu sem erum í. Við ætlum að vera kolefnishlutlaus tvö þúsund og fjörutíu, óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja,“ sagði Guðlaugur. Þá væri þörf á frekari virkjunum og betri nýtingu til þess að framleiða nógu mikið afl.

Betur má ef duga skal 

Þá segir hann vöntun á heitu vatni í Reykjavík fyrirhyggjuleysi.

„Þetta snýst ekki bara okkur vanti rafmagns, okkur vantar heitt vatn líka. Okkur vantar bara svolítið mikið af því. Okkur vantar það svolítið hratt. Við þurfum að tvöfalda heitavatnsframleiðslu á höfuðborgarsvæðinu til að fá heitt vatn í húsin. Það eru engin náttúrulögmál á Íslandi og ekkert eðlilegt við það að þegar kemur vont veður þá getur fólk ekki farið í sund í Reykjavík,“ sagði ráðherra. Stjórnvöld hafi ekki heldur verið að sinna heitavatsveitingu annars staðar á landinu, sé það gert muni það nýtast landsbyggðinni á ýmsa vegu og þá sérstaklega í atvinnusköpun.

Við erum búin að setja núna tuttugu og sex milljarða í niðurgreiðslur á húshitun á síðustu tíu árum. Það eru fimmtíu og tvær háhita holur eða tvö hundruð vinnsluholur. Ég varð mjög hugsi þegar ég kallaði eftir þessum tölum. Þetta er í rauninni það sem við hefðum getað gert 1938  og í rauninni 1970 líka þegar við fórum í jarðvarma. Í stað þess að fara að taka á því að leita að heitu vatni og nýta heita vatnið þá hefði maður getað farið í að halda sig við olíu eða gas og kol og bara greitt niður því það er það sem við erum að gera núna. Við höfum ekkert verið að leita að heitu vatni í tíu ár. Við erum að vísu búnir að setja það allt saman á fullt en en betur má ef duga skal,“ sagði ráðherra.

Enginn sé að fara að hætta við því Ísland standi svo framarlega

Þá bendir hann á að mikilvægt sé að muna að með því að vernda náttúruna séu efnahagsleg gæði vernduð. Níutíu prósent ferðamanna sem komi til landsins komi í leit að ósnortinni náttúru sem þurfi að huga að við orkuframleiðslu.

Hvað varðar viðbrögð við loftslagsbreytingum sé nauðsynlegt að einfalda framleiðsluferli á grænni orku. Mikil þörf sé á grænni orku og það þurfi að flýta þeim skiptum frá jarðefnaeldsneyti. Hann segir mikilvægt að stjórnvöld og atvinnulíf taki höndum saman í þessari vegferð en ávinningurinn af því að vinna að grænni orku sé gríðarlegur.

„Það mun enginn ferðamaður segja. Ég ætla ekki að koma til Íslands vegna þess að þeir hafi náð stórkostlegum árangri í loftslagsmálum. Það eru bara rafbílar þar,  öll hús eru vottuð, þeir eru rosalega góðir í hringrásarhagkerfinu. Það er enginn sem segir: ég ætla ekki að fara til Íslands út af því. Það munu margir segja: ég ætla að fara þangað af því þeir eru meðal þeirra fremstu og jafnvel fremstir,“ sagði Guðlaugur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert