„Við gengum bara á lagið“

Pablo Punyed með boltann í leiknum í kvöld.
Pablo Punyed með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Íslands-og bikarmeistara Víkings, var himinsæll eftir stórsigur gegn Levadia Tallinn í forkeppni Meistaradeildar Evrópu karla í knattspyrnu í kvöld. 

Víkingur vann 6:1 eftir að hafa lent 0:1 undir í upphafi leiks. Arnar segir Víkinga hafa keyrt yfir andstæðingana. 

„Fyrri hálfleikurinn var einn sá besti undir minni stjórn. Það er klárt mál. Orkan var svo mikil og ákefðin. Við keyrðum bara yfir þá þrátt fyrir höggið í byrjun leiks. Við héldum áfram og trúðum á okkar leikplan. Hreyfingin á liðinu og hvernig við pressuðum þá var unun á að horfa í fyrri hálfleik. Það lagði grunninn að þessu. Í seinni hálfleik voru þeir farnir að taka áhættu enda skiptir ekki máli hvort þú tapir stórt eða naumt í þessu fyrirkomulagi. Þeir hefðu örugglega spilað aðeins öðruvísi ef það hefði verið annar leikur í Eistlandi. Fyrir vikið opnuðu þeir sig og við gengum bara á lagið,“ sagði Arnar þegar mbl.is tók hann tali á Víkingsvelli í kvöld og benti á að hans mönnum hafi ekki alltaf gengið vel að sigla sigrum heim þegar liðið næði forystu. 

„Vanalega höfum við verið að ströggla í seinni hálfleik eftir að vera komnir í góða stöðu í fyrri hálfleik. Höfum þá átt það til að vera kærulausir og hleypa andstæðingunum inn í leikinn. Nú töluðum við umí hléi að síðari hálfleikurinn í kvöld væri prófsteinn á hversu þroskaðir við værum orðnir sem lið. Hvort við gætum mætt út í seinni leikinn og afgreitt leikinn á fagmannlegan hátt.“

Arnar Gunnlaugsson gat leyft sér að brosa í kvöld.
Arnar Gunnlaugsson gat leyft sér að brosa í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víkingur mætir In­ter d'Escaldes frá Andorra á föstudaginn í úr­slita­leik um sæti í 1. um­ferðinni, þar sem sænsku meist­ar­arn­ir í Mal­mö bíða. Verða hans menn ferskir á föstudaginn? 

„Adrenalín tekur yfir þreytuna í svona aðstæðum. Þetta eru forréttindi. Þú ert að spila í Meistaradeildinni þótt þetta sé forkeppni. Því fylgir gæsahúð að heyra lagið fræga fyrir leikinn sem fylgir keppninni. Það er mikil gulrót sem bíður okkar. Að halda áfram í keppninni, halda áfram þessu ævintýri og spila á móti Malmö. Ef menn verða ekki klárir í slaginn á föstudaginn þá geta menn bara hætt þessu,“ sagði Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert