Aðalsteinn frá Sviss til Þýskalands í sumar

Aðalsteinn Eyjólfsson skiptir yfir til Minden í sumar.
Aðalsteinn Eyjólfsson skiptir yfir til Minden í sumar. Ljósmynd/Kadetten

Handknattleiksþjálfarinn Aðalsteinn Eyjólfsson mun yfirgefa svissneska félagið Kadetten í sumar og færa sig yfir til Minden í Þýskalandi. Aðalsteinn er á sínu þriðja tímabili með Kadetten, sem er ríkjandi svissneskur meistari.

Handbolti.is hefur fregnirnar eftir Mindener Tageblatt. Samningur Aðalsteins við Minden er til tveggja ára.

Aðalsteinn þekkir þýska handboltann býsna vel, því hann hefur þjálfað Kassel, Eisenach, Hüttenberg, Erlangen og Weibern þar í landi.

Minden er sem stendur í næstneðsta sæti þýsku 1. deildarinnar með sex stig eftir 18 leiki og þremur stigum frá öruggu sæti í deildinni. Er því óvíst hvort Aðalsteinn taki við liðinu í efstu deild, eða 2. deildinni.  

Sveinn Jóhannsson er leikmaður liðsins um þessar mundir. Á meðal annarra Íslendinga sem hafa leikið fyrir félagið eru Patrekur Jóhannesson, Einar Örn Jónsson og Vignir Svavarsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert