Áhættusvæðin sögð brátt tilbúin fyrir ferðamenn

Frá flugvelli á Majorka, eyju við Spán. Einungis meginland Spánar …
Frá flugvelli á Majorka, eyju við Spán. Einungis meginland Spánar er á lista yfir áhættusvæði hjá íslenskum stjórnvöldum. AFP

Viðbúið er að Portúgal, Spánn, Grikkland, Króatía og fleiri vinsælir dvalarstaðir ferðamanna á sumrin muni geta opnað landamæri sín fyrir ferðamönnum, án verulegra takmarkana, strax í lok júní, að sögn Alan French, framkvæmdastjóra ferðaskrifstofunnar Thomas Cook. 

Öll þessi lönd eru enn sem komið er á lista yfir áhættusvæði hjá íslenskum stjórnvöldum. Þau sem koma þaðan, nema þau séu bólusett eða með vottorð um fyrri Covid-19-sýkingu, þurfa því að fara í tvöfalda skimun með 5 daga sóttkví á milli á sóttkvíarhóteli við komuna til landsins.

Telur mikinn árangur fram undan

Í samtali við BBC 4 í dag sagði hann að „miklar framfarir“ væru nú í Portúgal og á Spáni í undirbúningi fyrir endurkomu orlofsgesta. 

„Þegar fríið hefst, rétt í lok júní, er viðbúið að flest löndin sem Bretar fara í frí til, sérstaklega innan Evrópu, verði opin. Við búumst við því að Portúgal, Spánn, Grikkland, Króatía og svo framvegis verði opin. Þá væri líka gaman ef Tyrkland gæti verið opið,“ sagði French. 

„Þegar við skoðum hvað er að gerast í þessum löndum, bæði hvað varðar smithlutfall og það hvernig þau eru að búa sig undir að taka á móti ferðamönnum held ég að mikill árangur sé að nást.“

Í lok júní gera íslensk stjórnvöld ráð fyrir því að 75% þeirra sem býðst bólusetning hér á landi muni hafa fengið að minnsta kosti einn skammt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert