Körfubolti

Gasol spilar áfram en nú með gömlu Ís­lendinga­fé­lagi sem hann stofnaði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marc Gasol kyssir konu sína Cristina Blesa þegar hann var kynntur sem nýr leikmaður Basquet Girona en hann heldur líka á dóttur þeirra Juliu Gasol Blesa.
Marc Gasol kyssir konu sína Cristina Blesa þegar hann var kynntur sem nýr leikmaður Basquet Girona en hann heldur líka á dóttur þeirra Juliu Gasol Blesa. EPA-EFE/David Borrat

Marc Gasol er kannski hættur í NBA-deildinni í körfubolta en körfuboltaskórnir fara ekki upp á hillu alveg strax.

Hinn 36 ára gamli Gasol ætlar að spila fyrir Bàsquet Girona sem er liðið sem hann stofnaði árið 2014. Það hét í upphafi CEB Girona Marc Gasol.

Gasol mun spila með Girona í spænsku b-deildinni sem er kölluð gulldeild spænska körfuboltasambandsins. Íslendingar ættu að kannast við liðið enda spilaði íslenski landsliðsmaðurinn Kári Jónsson með félaginu á síðustu leiktíð.

Kári var þá með 7,2 stig að meðaltali á 19,2 mínútum í leik. Kári er nú kominn aftur heim og spilar með Val.

Girona liðið hefur ekki byrjað tímabilið alltaf vel en liðið hefur bara unnið tvo a fyrstu níu leikjum sínum. Það má búast við að koma Gasol muni breyta miklu fyrir liðið.

Liðið vann tvo fyrstu leikina en hefur síðan tapað sjö leikjum í röð. Það er því ljóst að Girona þarf á manni eins og Marc Gasol að halda.

Gasol spilaði á síðasta tímabili með Los Angeles Lakers en lék stærsta hluta ferilsins síns með liði Memphis Grizzlies. Gasol er 211 sentimetrar á hæð, var valinn í úrvalslið NBA-deildarinnar 2015 og besti varnarmaður tímabilsins 2013.

Gasol lék alls 891 deildarleik í NBA frá 2008 til 2021 en í þeim var hann með 14,0 stig, 7,4 fráköst og 3,4 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Gasol endaði landsliðsferilinn með Spáni á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar. Hann varð tvisvar heimsmeistari og tvisvar Evrópumeistari með spænska landsliðinu auk þess að vinna tvö Ólympíusilfur.

Eldri bróðir hans, Pau Gasol, setti körfuboltaskóna sína upp á hillu í síðasta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×