„Til í að gera andskoti margt fyrir lítið“

Arnar Daði Arnarsson og Maksim Akbaschev fara yfir málin með …
Arnar Daði Arnarsson og Maksim Akbaschev fara yfir málin með sínum mönnum. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Þetta var framar björtustu vonum. Það er ekki gefið að vinna svona sannfærandi hérna á Selfossi, leikurinn var eiginlega búinn þegar tæpar tíu mínútur voru eftir og ég bjóst ekki við því. Við höfum oft verið í spennutrylli í vetur og þurft að hafa fyrir hlutunum en þetta var – ég ætla ekki að segja þægilegra – en þetta var aðeins öðruvísi en ég bjóst við,“ sagði Arnar Daði Arnarson, þjálfari Gróttu, eftir frábæran 26:20 sigur á Selfossi í Olísdeild karla í handbolta á Selfossi í kvöld.

„Ég sagði við strákana strax eftir leik inni í klefa að njóta tilfinningarinnar og fagna, en muna það að þetta er ekki sjálfsagt. Það sem strákarnir eru búnir að leggja á sig, og þjálfarateymið, til þess að vera undirbúnir fyrir hvern leik, ég held að það sé ekki gefins. Strákarnir eru til í að gera andskoti margt fyrir lítið. Við æfum ótrúlega vel og erum agaðir og æfingarnar verða alltaf betri og betri og það skilar sér. Kannski var trúin ekki alveg til staðar í byrjun móts, en svo þegar sigrarnir fara að koma þá eykst trúin og ég held að hún hafi fleytt okkur ansi langt hérna í kvöld.“

Gróttumenn spiluðu vel, bæði í vörn og sókn allan tímann og Arnar Daði tekur undir það að þetta hafi verið einn besti leikur liðsins í vetur.

„Heilt yfir þá var þetta mjög góður leikur og einn af okkar heilsteyptustu leikjum í vetur. Framleikurinn [í síðustu umferð] var líka mjög góður. Það má ekki gleyma því að við erum án Lúlla [Lúðvíks Arnkelssonar] sem byrjaði inni á í síðasta leik og Jóhann Reynir fær höfuðhögg eftir fimm mínútur í kvöld og þá eru miðjumenn númer eitt og tvö dottnir út hjá okkur. Ingólfur kemur inn – ég held að hann sé búinn að spila fimm mínútur í vetur – hann spilar fimmtíu mínútur í kvöld og spilar óaðfinnanlega. Þetta sýnir það að menn sem hafa lítið hlutverk eru tilbúnir. Menn verða að vera klárir þegar það er spilað svona þétt. Gústi í hægra horninu [Ágúst Grétarsson] spilar lítið í síðustu leikjum og nú spilar hann sextíu mínútur, þannig að þetta er líka sigur heildarinnar og hópsins.“

Tveir sannfærandi sigrar í röð, eru þið mættir?

„Við erum löngu mættir. Ég held að við höfum sýnt það í upphafi móts, en núna eru stigin að koma í hús og það er ótrúlega jákvætt. Ég hef talað um það margoft að það er tvennt ólíkt að standa í góðu liðunum og tapa og standa í góðu liðunum og vinna. Ég er búinn að segja við strákana í allan vetur að það er ekkert annað en þeir sjálfir sem getur stoppað þá og þeir eru að sýna það í síðustu tveimur leikjum og fleiri leikjum að það er ekkert annað en hausinn á manni sem getur stoppað mann,“ sagði Arnar Daði að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert