Fatnaði, kveikjuláslyklum og bifreið stolið

Lögregla hefur átt annríkt í dag.
Lögregla hefur átt annríkt í dag. mbl.is/Eggert

Tilkynnt var um innbrot í geymslu í Háaleiti. Lögregla fór á vettvang og ræddi við þann sem tilkynnti, en sá kvaðst hafa séð einstaklinga ganga inn í húsnæðið tómhenta, en gengið út með einhverja muni. Málið er í rannsókn. 

Önnur tilkynning barst svo um innbrot og þjófnað. Þar var búið að stela flíkum, kveikjuláslyklum og bifreið, en það mál er einnig í rannsókn. 

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. 

Kviknaði í ísskáp

Eldur kviknaði í ísskáp í dag og var eldurinn farinn að dreifa sér um eldhúsið. Lögregla fór á vettvang ásamt slökkviliði sem tókst að slökkva eldinn. Tæknideild lögreglu fór einnig á vettvang.

Þá sinnti lögregla einnig útkalli vegna vatnsleka, þar sem krani hafði losnað og heitt vatn lak út. Lögregla fór á vettvang ásamt slökkviliði. Það tókst að skrúfa fyrir heita vatnið en ekki liggur fyrir hversu mikið tjón varð á vettvangi.

Skráningarmerki fjarlægð af 13 ökutækjum

Í Kópavogi og Breiðholti voru skráningarmerki fjarlægð af 13 bifreiðum.

Einnig var ökumaður á svæðinu stöðvaður fyrir of hraðan akstur, en hann ók á 113 km/klst. þar sem hámarkshraði var 80 km/klst. 

Lá í jörðinni

Lögregla var við eftirlit í miðbænum í morgun og kom auga á mann sem lá í jörðinni. Lögregla gaf sig á tal við manninn sem reyndist mjög ölvaður og ók lögregla manninum heim til sín.

Einnig var óskað eftir aðstoð lögreglu í verslun vegna manns í annarlegu ástandi. Lögregla fór á vettvang og gaf aðilanum fyrirmæli um að yfirgefa verslunina, sem  hann gerði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert