„Vá hvað þetta er gaman!“

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir dró vagninn fyrir ÍBV og skoraði 12 …
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir dró vagninn fyrir ÍBV og skoraði 12 mörk í úrslitaleiknum gegn Val. mbl.is/Óttar

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir dró heldur betur vagninn fyrir ÍBV er liðið lagði Val, 31:29, í bikarúrslitaleik kvenna í handbolta.

Hún skoraði 12 mörk í leiknum í öllum regnbogans litum og var ekkert minna en stórkostleg.

„Ég veit ekki hvað er hægt að segja, vá hvað þetta er gaman. Þessi liðsheild og mótlæti eftir mótlæti og mæta hérna með þennan stuðning. Vá hvað þetta er gaman!“ segir Hrafnhildur Hanna sigurreif að leik loknum.

„Þjöppuðum okkur saman“

ÍBV missti markvörð sinn af velli með rautt spjald um miðbik fyrri hálfleiks en Marta Wawrzynkowska hafði varið vel fram að því.

„Þetta var mikið áfall. Marta er búinn að vera frábær og er frábær liðsmaður en það kemur alltaf maður í manns stað og Ólöf kemur og stígur frábærlega upp. Við þjöppuðum okkur enn betur saman og vorum enn staðráðnari í því að gefa allt okkar inn á vellinum,“ segir Hrafnhildur Hanna.

Hún segir liðið hafa sýnt andlega styrk sem hún segir að sé mjög mikilvægt í svona leik.

„Við gáfum allt okkar í þetta og skildum allt eftir á vellinum.“

Hlakkar mikið til að fara í Herjólf

Nú tekur við sigling með Herjólfi til Vestmannaeyja þar sem gera má ráð fyrir einhverri gleði.

„Það er búið að tala um siglinguna með bikarinn heim síðan ég flutti til Eyja, að það sé það skemmtilegasta sem maður gerir. Ég hlakka mikið til að fara í Herjólf á eftir!“ segir Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir nýkrýndur Bikarmeistari og besti leikmaður bikarúrslita kvenna árið 2023.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert