Með slagsmálin í blóðinu

Ýmir Örn Gíslason er lykilmaður í varnarleik Íslands.
Ýmir Örn Gíslason er lykilmaður í varnarleik Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Handknattleikskappinn Ýmir Örn Gíslason var duglegur að slást við bræður sína á yngri árum og vílar því ekki fyrir sér að taka fast á mönnum á línunni á HM í Egyptalandi.
Ýmir, sem er einungis 23 ára gamall, tekur þátt í sínu fjórða stórmóti með íslenska landsliðinu en hann er samningsbundinn stórliði Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi.

Varnarmaðurinn er orðinn einn mikilvægasti leikmaður íslenska liðsins en hann verður í eldlínunni í kvöld þegar Ísland mætir Alsír í öðrum leik sínum á HM í Egyptalandi í New Capitol-Sports-höllinni í „Nýju höfuðborginni“ í F-riðli keppninnar.

„Það var erfitt að kyngja þessu tapi gegn Portúgal [á fimmtudaginn] en við höfum lagt þann leik algjörlega til hliðar og núna erum við eingöngu að hugsa um leikinn gegn Alsír,“ sagði Ýmir Örn í samtali við Morgunblaðið.

„Við erum því að renna aðeins meira blint í sjóinn en í fyrsta leik en það er engin hætta á öðru en að það verði farið mjög vel yfir liðið frá Alsír og þeirra leik. Það er hins vegar stór munur á því að horfa á klippur með liðinu sem þú ert að fara spila á móti og svo að bregðast við því sem andstæðingurinn gerir þegar á hólminn er komið.

Það er ýmislegt sem þarf að stúdera, eins og hreyfingar og kerfi, og þetta snýst að stóru leyti um að reyna að átta sig á því hvar þeir vilja helst sækja á mann og gera árás. Markmiðið er áfram það sama, þótt við höfum tapað fyrsta leiknum. Við ætlum okkur eins langt og mögulegt er og það kemur ekkert annað til greina en sigur gegn Alsír,“ sagði Ýmir.
Þrátt fyrir mikil átök í síðustu þremur leikjum Íslands og Portúgals er Ýmir í góðu standi og tilbúinn í slaginn gegn Alsír.

Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag en leikur Íslands og Alsír á HM hefst kl. 19.30 í kvöld og verður í beinni textalýsingu á mbl.is.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert