Varð ekki fyrir fjártjóni

Úr dómsal Hæstaréttar
Úr dómsal Hæstaréttar mbl.is/Oddur

Kópavogsbær hefur verið sýknaður af dómkröfum erfingja Sigurðar K. Hjaltested í Vatnsendamálinu. Komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu fyrr í dag.

Erfingjar Sigurðar K. Hjaltested byggja mál sitt meðal annars á því að við eignarnám landspildna árin 1992, 1998, 2000 og 2007, hafi Kópavogsbær greitt röngum aðilum eignarnámsbæturnar. Hafði bærinn greitt ábúendum jarðarinnar bæturnar. Dánarbúið er handhafi beins eignarréttar að jörðinni á Vatnsenda og töldu þau búið því eiga rétt á þeim bótum.

Var aðallega á því reist að við greiðslu eignarnámsbóta til rangra aðila hafi Kópavogsbær ekki losnað undan greiðsluskyldunni til þeirra aðila sem áttu rétt á þeim samkvæmt lögum. Þá var þess einnig krafist að dánarbúið ætti rétt á skaðabótum vegna þess tjóns sem Kópavogsbær olli með greiðslu eignarnámsbóta til rangra aðila.

Höfnuðu fjártjóni

Kópavogsbær krafðist staðfestingar niðurstöðu Landsréttar um sýknu. Bærinn byggði á því að dánarbú Sigurðar K. Hjaltested hafi aldrei orðið fyrir neinu fjártjóni við eignarnám bæjarins. Samkvæmt erfðaskrá Magnúsar Einarssonar,  afabróður Sigurðar, frá árinu 1938, tilheyrðu eignarnámsbæturnar þeim sem fara með umráð og afnot jarðarinnar á hverjum tíma.

Þær tilheyrðu handhafa óbeinna eignarréttinda jarðarinnar. Þrátt fyrir að Sigurður K. Hjaltested hafi notið beinna eignarréttinda yfir jörðinni þá fylgdi þeim réttindum ekki óbein réttindi. Voru þau réttindi því aðallega formlegs eðlis án fjárgildis.

Þá byggði Kópavogsbær einnig á því að eignarnámsbætur voru greiddar í góðri trú og til þess sem á hverjum tíma hafði þinglýsta eignarheimild að Vatnsenda.

Erfðaskrá frá 1938 skipti sköpum

Í niðurstöðu Hæstaréttar kemur fram að beini eignarrétturinn sem Sigurður K. Hjaltested hlaut samkvæmt erfðaskrá Magnúsar Einarssonar, frá árinu 1938, hafi verið formlegs eðlis án fjárgildis og því verðlaus í höndum rétthafans.

Var það leitt af erfðaskránni en samkvæmt henni voru rétthafar beina eignaréttarins sviptir öllum þeim heimildum sem almennt felast í eignarrétti, svo sem umráða- hagnýtingar- og ráðstöfunarrétti.

Eignarnámsbæturnar tilheyrðu því þeim sem höfðu óbein eignarréttindi yfir jörðinni en í dómi Hæstaréttar nr. 99/1968 var staðfest að dánarbú Sigurðar hafði ekki yfir þeim að ráða.

Kröfur um eignarnámsbætur fyrir árin 1992, 1998 og 2000 voru fyrndar. Varð dánarbú Sigurðar K. Hjaltested ekki fyrir fjártjóni vegna eignarnámsins árið 2007 og var Kópavogsbær sýknaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert