Valur snéri vonlítilli stöðu í sigur

Kristófer Acox og Callum Lawson fagna sigrinum í kvöld.
Kristófer Acox og Callum Lawson fagna sigrinum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valur er 2:1 yfir gegn Tindastóli í úrslitaeinvígi Íslandsmóts karla í körfuknattleik eftir sigur í þriðja leik liðanna á Hlíðarenda í kvöld.

Fram að þessu höfðu liðin unnið sitt hvorn heimaleikinn og þriðji sigurinn vannst einnig á heimavelli. Valur sigraði 84:79 en það var nú aldeilis ekki útlit fyrir það um tíma í leiknum. 

Tindastóll var yfir að loknum fyrri hálfleik 52:36 og höfðu þá verið miklu betri. Snemma í síðari hálfleik var munurinn orðinn nítján stig. Valsmenn urðu smám saman ákveðnari í þriðja leikhluta en þegar þeir reyndu að saxa á muninn þá tókst Tindastóli yfirleitt að svara fyrir sig. Í þriðja leikhluta fór munurinn því ekki undir tíu stig. 

Fyrir síðasta leikhlutann var Tindastóll tólf stigum yfir en þá gerbreyttist leikurinn. Sauðkrækingar sem höfðu verið vel upplagðir í leiknum frusu nánast í sókninni. Smá saman fuðraði forskotið upp og reyndir Valsmenn gengu á lagið. Stólarnir skoruðu ekki í liðlega fimm mínútur í síðasta leikhlutanum og það reyndist dýrt þegar uppi var staðið. Valsmenn tóku forystuna 73:72 þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir af leiknum. 

Þá tóku Stólarnir skyndilega við sér á ný og Javon Bess sem lítið hafði skorað fram að því skoraði fimm stig í röð. Tindastóll náði því þriggja stiga forskoti og í hönd fór mjög spennandi lokakafli. Þar reyndust Valsmenn sterkari. Meðbyrinn var með þeim og þeir voru miklu betri í síðasta leikhlutanum. 

Stuðningsmenn Vals á pöllunum í kvöld.
Stuðningsmenn Vals á pöllunum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Næsti leikur verður á Sauðárkróki og sá fimmti á Hlíðarenda ef á þarf að halda en vinna þarf þrjá leiki til að verða Íslandsmeistari. Ekki kæmi það undirrituðum á óvart ef þessi rimma færi í fimm leiki og úrslitin myndu ráðast í hreinum oddaleik. 

Leikurinn í kvöld var fremur furðulegur vegna þess hversu kaflaskiptur hann var. Tindastóll var mun betra liðið í fyrri hálfleik og Valur í þeim síðari. En einhvern veginn hafa leikir í úrslitakeppninni tilhneigingu til að verða spennandi. Þessi varð það líka þótt fátt hafi bent til þess í upphafi síðari hálfleiks. 

Valsmenn sýndu að hugarfarið er í lagi hjá þeim. Þeir voru í basli í sókninni lengi vel en héldu ró sinni og misstu ekki einbeitinguna. Þeir spiluðu hörkuvörn þegar mikið lá við og vörn skilar titlum eins og boltaunnendur þekkja. 

Gangur leiksins:: 6:4, 12:12, 12:16, 18:23, 18:28, 23:37, 29:46, 36:52, 39:55, 45:60, 52:64, 57:69, 65:72, 73:72, 76:77, 84:79.

Valur: Kári Jónsson 18/4 fráköst, Jacob Dalton Calloway 16/12 fráköst/3 varin skot, Kristófer Acox 13/10 fráköst, Callum Reese Lawson 12/5 fráköst, Pablo Cesar Bertone 10/5 fráköst/7 stoðsendingar, Hjálmar Stefánsson 10/6 fráköst, Pavel Ermolinskij 5/6 fráköst.

Fráköst: 35 í vörn, 13 í sókn.

Tindastóll: Taiwo Hassan Badmus 21/9 fráköst, Pétur Rúnar Birgisson 14, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 12/7 fráköst, Javon Anthony Bess 10/5 fráköst/5 stoðsendingar, Zoran Vrkic 9/6 fráköst, Sigtryggur Arnar Björnsson 8, Viðar Ágústsson 3, Axel Kárason 2.

Fráköst: 23 í vörn, 10 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Aðalsteinn Hjartarson, Eggert Þór Aðalsteinsson.

Áhorfendur: 2.000

Skagfirðingurinn Javon Bess sækir að körfu Vals þar sem Kári …
Skagfirðingurinn Javon Bess sækir að körfu Vals þar sem Kári Jónsson og Pablo Cesar Bertone eru til varnar. mbl.is/Kristinn Magnússon
Valur 84:79 Tindastóll opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert