Vonast til að ná landsleikjunum í haust

Hörður Björgvin Magnússon sleit hásin um síðustu helgi.
Hörður Björgvin Magnússon sleit hásin um síðustu helgi. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Hörður Björgvin Magnússon, landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu, vonast til þess að vera orðinn leikfær þegar Ísland mætir Rúmeníu, Norður-Makedóníu og Þýskalandi á Laugardalsvelli í september í undankeppni HM.

Þetta staðfesti hann í samtali við RÚV en Hörður Björgvin sleit hásin í leik með félagsliði sínu CSKA Moskvu um síðustu helgi.

Hörður Björgvin mun gangast undir aðgerð vegna meiðslanna á föstudaginn kemur og eftir það tekur við ströng endurhæfing.

„Ég held að menn tali alltaf um allavega sex mánaða bataferli,“ sagði Hörður í samtali við RÚV.

„En svo eru auðvitað dæmi um fólk sem hefur jafnað sig á skemmri tíma. Vonandi verð ég bara í þeim hópi, þannig að ég verði klár í slaginn aftur í september.

Verður maður ekki alltaf að vera bjartsýnn? Ef maður er það ekki nær maður ekki neinu. En maður tekur auðvitað bara einn dag í einu.

Vonandi gengur endurhæfingin vel og ég fái þá að sjá mikinn bata á nokkrum vikum. Það er mín ósk. En auðvitað gæti þetta tekið lengri tíma, og þá er það bara þannig,“ bætti Hörður við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert