„Hendum boltanum auðveldlega frá okkur“

Guðmundur Bragi gæti verið á förum.
Guðmundur Bragi gæti verið á förum. Ottar Geirsson
Haukar eru komnir í sumarfrí eftir tap gegn ÍBV að Ásvöllum í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins í handbolta. Hvað fór úrskeiðis í leik Hauka í dag?

„Við vorum ekki nógu klókir allan leikinn, hendum boltanum auðveldlega frá okkur, sérstaklega þegar við missum forskotið í fyrri hálfleik. Þeir fá auðveld hraðaupphlaup sem skilur liðin að í fyrri hálfleik.

Síðan kemur síðari hálfleikur og við náum aldrei upp neinum takti þar sem við erum líklegir. Síðan kemur þetta fíaskó frá flautunni [dómurunum] og leikurinn tætist upp. Við vorum síðan bara aldrei líklegir restina af leiknum.“

Haukar byrja mjög vel og komast í 6:2 en svo fer Petar að verja og þá er eins og allt brotni hjá Haukum. Hvað gerist þá?

„Já, við mætum vel í leikinn og það var allt til fyrirmyndar. Síðan bara gerum við rosalega mikið af mistökum sem kosta okkur rosalega. Þegar Petar fer að verja þá byrjum við að gera alls konar mistök.“

Nú eru Haukar komnir í sumarfrí og eru þá væntanlega farnir að huga að næsta tímabili. Verður Ásgeir Örn áfram þjálfari Hauka?

„Já, ég er að minnsta kosti með samning og það hefur ekkert annað verið rætt en að ég haldi áfram þannig að svarið við því er já.“

Nú eru Haukar byrjaðir að safna liði fyrir næsta tímabil og því liggur beinast við að spyrja hvort að besti leikmaður Hauka verði áfram á næsta tímabili, Guðmundur Bragi Ástþórsson?

„Það er mjög líklegt að Guðmundur Bragi fari erlendis og það ætti ekki að koma neinum á óvart. Það verða einhverjar breytingar, einhverjir að hætta, einhverjir komnir og Haukar verða bara með flott lið á næsta tímabili.“

Þannig að Haukar stefna á titilbaráttu næsta vetur?

„Já, já það hefur verið þannig síðan ég byrjaði hér fyrir 24 árum og það breytist ekkert á næsta ári,“ sagði Ásgeir að lokum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert