Orðið afar þunnskipað í varnarlínu Real

Éder Militao er eini leikfæri miðvörður Real Madríd í dag.
Éder Militao er eini leikfæri miðvörður Real Madríd í dag. AFP

Spænska knattspyrnuliðið Real Madríd verður enn fyrir skakkaföllum í varnarlínu sinni. Ferland Mendy, vinstri bakvörður liðsins, er að glíma við meiðsli í kálfa og Federico Valverde, sem lék í stöðu hægri bakvarðar gegn Liverpool í vikunni, er kominn í einangrun.

Búist er við því að Mendy verði frá í 10 daga en níu dagar eru í fyrri leik Real við Chelsea í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Valverde, sem er miðjumaður að upplagi, er kominn í einangrun heima hjá sér eftir að hafa umgengist aðila sem greindist smitaður af kórónuveirunni. Hann hefur þó skilað neikvæðum niðurstöðum úr öllum skimunum og ætti því hið minnsta að vera klár í slaginn gegn Chelsea.

Báðir missa þeir því af leik Spánarmeistaranna við nágranna sína í Getafe í kvöld. Fyrir eru Sergio Ramos, Raphael Varane, Dani Carvajal og Lucas Vázquez frá vegna meiðsla og þá er Nacho Fernández í leikbanni.

Éder Militao er því eini leikfæri miðvörður aðalliðsins í kvöld. Þar sem varnartengiliðurinn Casemiro er einnig í leikbanni gæti hinn ungi Víctor Chust fengið tækifærið í hjarta varnarinnar í leiknum gegn Getafe í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert