Talar mjög fallega um íslenska landsliðið

Ingibjörg Sigurðardóttir er mætt aftur í íslenska landsliðið en hún …
Ingibjörg Sigurðardóttir er mætt aftur í íslenska landsliðið en hún fékk ekki leyfi frá félagsliði sínu Vålerenga til þess að taka þátt í vináttuleikjunum gegn Ítalíu í Firenze í apríl vegna strangra sóttvarnareglna í Noregi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er mitt fyrsta verkefni með nýju þjálfarateymi og ég er fyrst og fremst að hugsa um að koma mér inn í hlutina,“ sagði Ingibjörg Sigurðardóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, á Teams-blaðamannafundi íslenska liðsins í dag.

Ísland mætir Írlandi í tveimur vináttuleikjum, dagana 11. júní og 15. júní, en báðir leikirnir fara fram á Laugardalsvelli.

„Við lítum á þessa tvo leiki sem mjög góðan undirbúning fyrir undankeppni HM sem hefst í september og við erum að reyna púsla ákveðnum hlutum saman.

Í landsliðinu fær maður ekkert gefins og maður þarf alltaf að sanna sig og vinna fyrir sínu sæti. Það er ekkert öðruvísi hjá mér né öðrum leikmönnum liðsins, við þurfum að vinna fyrir okkar sæti,“ sagði Ingibjörg.

Amanda Jacobsen Andradóttir er liðsfélagi Ingibjargar í Noregi.
Amanda Jacobsen Andradóttir er liðsfélagi Ingibjargar í Noregi. Ljósmynd/Vålerenga

Amanda Andradóttir, liðsfélagi Ingibjargar hjá Vålerenga í Noregi, var valin í U19-ára landslið Noregs á dögunum en hún er gjaldgeng í bæði íslenska og norska landsliðið og hafa einhverjir gagnrýnt þá ákvörðun að velja Amöndu ekki í hópinn fyrir vináttuleikina tvo gegn Írlandi.

„Amanda er frábær leikmaður og gríðarlega efnileg. Hún hefur sýnt hversu megnug hún er, bæði á æfingasvæðinu og í leikjum með okkur. Á sama tíma er hún bara sautján ára gömul og mjög ung ennþá.

Hún veit það sjálf að hún þarf að vera þolinmóð og bíða eftir sínu tækifæri. Hún er lítið að stressa sig á hlutunum og það verður spennandi að sjá hvað hún gerir í framtíðinni.“

Auðvitað tala ég mjög fallega um íslenska landsliðið en ákvörðunin er hennar þegar allt kemur til alls,“ bætti Ingibjörg við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert