Fótbolti

Elías Rafn með kórónuveiruna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elías Rafn Ólafsson í leik með Fredericia.
Elías Rafn Ólafsson í leik með Fredericia. getty/Lars Ronbog

Danska B-deildarliðið Fredericia hefur staðfest að Elías Rafn Ólafsson hafi greinst með kórónuveiruna á dönsku landamærunum eftir komuna frá Lúxemborg þar sem hann lék með íslenska U-21 árs landsliðinu á þriðjudaginn.

Í morgun bárust fréttir af því að íslenskur U-21 árs landsliðsmaður hefði greinst með kórónuveiruna. Nú er ljóst að það er Elías. Í samtali við Vísi í dag sagði Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, að ekki væri vitað um fleiri smit í íslenska hópnum.

Í frétt á heimasíðu Fredericia kemur fram að Elías sé einkennalaus og í einangrun. Aðrir leikmenn liðsins þurfa ekki að fara í sóttkví.

„Þetta er auðvitað leiðinlegt fyrir Elías en sem betur fer sýnir hann engin einkenni. Vonandi kemur hann fljótlega aftur,“ sagði Stig Pedersen, stjórnarmaður hjá Fredericia.

Elías stóð í marki íslenska U-21 árs liðsins gegn Lúxemborg á þirðjudaginn. Ísland vann leikinn með tveimur mörkum gegn engu.

Elías, sem er tvítugur, hefur leikið fjóra leiki með U-21 árs landsliðinu. Þá var hann valinn í A-landsliðið fyrir vináttulandsleikina gegn Kanada og El Salvador í Bandaríkjunum í janúar á þessu ári.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×