Úrskurður héraðsdóms vonbrigði

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Auðvitað er hann vonbrigði því við töldum okkur vera að fara eftir vilja löggjafans með þessari reglugerð og töldum að hún byggðist á nægilega traustum grunni,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í Kastljósi RÚV í kvöld.

Katrín sagði að það hefði þó mátt búast við því að það yrði látið reyna á lögmæti aðgerða sem stjórnvöld hafa ráðist í til að hefta útbreiðslu faraldursins. Ákvörðun stjórnvalda hefði verið að kæra úrskurðinn til Landsréttar, sem væntanlega myndi komast að niðurstöðu fljótlega, og það myndi skýra stöðuna.

„Fari svo að Landsréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms eru tvær sviðsmyndir uppi,“ sagði Katrín. Önnur væri sú að gera sóttvarnalög skýrari með breytingum en hin væri sú að breyta framkvæmd sóttvarnaaðgerða og gera það betur þannig að þær rúmist innan ramma laga og reglugerða.

Katrín sagðist ekki taka undir að Alþingi hefði gert mistök við gerð sóttvarnalaganna. Framsögumaður frumvarpsins og varaformaður velferðarnefndar hefði metið það svo að hinar almennu heimildir sóttvarnalæknis væru það ríkar að skilgreiningin á sóttvarnahúsi í lögunum yrði ekki til að þrengja þær.

Aldrei komið til tals að loka landinu

„Nei það hefur það nú ekki,“ sagði Katrín spurð hvort það hefði komið til tals að loka landinu þangað til búið væri að bólusetja meirihluta þess hóps sem á að bólusetja. Katrín sagði að fyrirkomulagið á landamærunum hefði verið skilvirkt og komið í veg fyrir mörg smit.

Katrín sagði ekki sannfæringu fyrir því að loka landinu alveg. Áform um að taka upp litakóðunarkerfi á landamærunum 1. maí eru óbreytt.

Hún nefndi að bólusetningarátak stjórnvalda fyrstu þrjá mánuði ársins hefði farið fram samkvæmt áætlun og á næstu þremur mánuðum ætti að vera búið að bólusetja 240 þúsund af þeim 280 þúsund sem á að bólusetja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert