Hafði aldrei trú á að hann væri að fara að skora

Orri Sigurður Ómarsson með boltann í kvöld.
Orri Sigurður Ómarsson með boltann í kvöld. mbl.is/Óttar

Orri Sigurður Ómarsson, leikmaður Vals, var svekktur er hann ræddi við mbl.is eftir markalaust jafntefli við Fylki í Bestu deildinni í fótbolta í Árbænum í kvöld. Hefði getað farið verr fyrir Val, því Frederik Schram varði víti frá Orra Sveini Stefánssyni í fyrri hálfleik.

„Þetta var mjög svekkjandi. Við vorum ekki góðir í dag. Frederik reddaði þessu stigi fyrir okkur. Við hefðum átt að gera miklu betur og skora. Það vantaði hraða í spilið okkar. Við spiluðum hægt og þetta var fyrirsjáanlegt,“ sagði Orri.

Valsmenn hafa ekki fengið á sig mark í fyrstu tveimur leikjum tímabilsins, með Orra í hjarta varnarinnar með Hólmari Erni Eyjólfssyni.

„Þetta byrjar á fremsta manni og Freddi hefur varið það sem hefur þurft að verja. Ég er sáttur við að halda hreinu, en samt líður mér eins og við höfum tapað þessum leik,“ sagði hann.

Orri hafði ekki miklar áhyggjur þegar Fylkismenn fengu vítið. „Ég sá ekki alveg hvað gerðist. Freddi er bara það góður vítabani að ég hafði aldrei trú á að hann væri að fara að skora.“

Orri hefur mikið glímt við meiðsli undanfarin ár. Hann lék ekkert í deildinni 2022 og aðeins sjö leiki á síðasta tímabili.

„Mér finnst ég eiga að spila í þessu liði og á meðan ég er heill vil ég spila. Það vissu ekki allir að ég væri heill og kannski kom það einhverjum á óvart. Ég er í nárabuxum og eitthvað vesen en þetta er ekkert sem hamlar mér inni á vellinum,“ sagði Orri sem er kampakátur með að vera kominn aftur á völlinn.

„Það er frábært og sérstaklega í svona góðu liði. Vonandi gengur þetta vel í sumar og ég spila sem mest,“ sagði Orri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert