Breytingarnar ekki afturvirkar

Reykjavík.
Reykjavík. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Ekki er lengur heimilt að gefa út leyfi til reksturs gististaða í íbúðarhúsnæði og skal rekstrarleyfisskyld gististarfsemi vera í samþykktu atvinnuhúsnæði. Þá verður aðeins hægt að sækja um leyfi til heimagistingar í íbúðarhúsnæði í 90 daga á ári samkvæmt breytingum á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra lagði fram frumvarp um breytingarnar og var það samþykkt í síðustu viku. Frumvarpið er hluti af mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar á framboðshlið íbúðarhúsnæðis á suðvesturhorni landsins og liður í því að mæta eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði.

Einstaklingar geta áfram leigt út heimili sín í allt að 90 daga á ári, eða fyrir sem nemur tveimur milljónum króna í leigutekjur. Eftir að því marki er náð getur viðkomandi ekki sótt um rekstrarleyfi gististaða heldur verða slík leyfi einungis gefin út ef um atvinnuhúsnæði er að ræða eða ef útleigueiningin er í dreifbýli.

Lilja segir í samtali við Morgunblaðið breytinguna vera sjálfsagða og að algjör samstaða hafi verið á þingi varðandi samþykkt frumvarpsins. Borið hefur á því að einstaklingar hafi verið með atvinnustarfsemi skráða sem gististarfsemi og því ekki greitt þá skatta af starfseminni sem eðlilegt væri. „Við bara teljum að þetta hafi ekki verið í takti við lögin eins og þau voru samin á sínum tíma,“ segir Lilja.

Lögin eru ekki afturvirk og munu því ekki hafa áhrif á þá sem eru nú þegar búnir að fá leyfi fyrir rekstur gististaða í íbúðarhúsum innan þéttbýlis. Lilja vonast til að breytingarnar muni gera það að verkum að framtíðarframboð verði meira og betra gagnsæi verði á þessum markaði.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert