Sænskur sigur í fjörugum leik – ferna og þrenna í sama leik

Stina Blackstenius fagnar fjórða marki Svía í leiknum í dag.
Stina Blackstenius fagnar fjórða marki Svía í leiknum í dag. AFP

Sænska kvennalandsliðið í knattspyrnu tryggði sér fyrst allra sæti í átta liða úrslitunum á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag með því að sigra Ástralíu í bráðfjörugum leik, 4:2.

Fridolina Rolfö kom Svíum yfir á 20. mínútu en Samantha Kerr jafnaði fyrir Ástralíu fyrir hlé og skoraði aftur í byrjun síðari hálfleiks.

Lina Hurtig jafnaði, 2:2, fjórum mínútum síðar og Rolfö skoraði sitt annað mark á 63. mínútu, 3:2. Kerr gat jafnað og ná þrennunni en Hedvig Lindahl í marki Svía varði frá henni vítaspyrnu. Í staðinn gulltryggði Stina Blackstenius sænskan sigur með marki á 81. mínútu, 4:2.

Svíar lögðu bandarísku heimsmeistarana í fyrsta leik, 3:0, og eru því með sex stig eftir fyrstu tvo leikina. Hvernig sem aðrir leikir fara verður það alltaf nóg til að fara áfram en átta lið af tólf halda áfram eftir riðlakeppnina.

Bandaríkin mæta Nýja-Sjálandi í seinni leik annarrar umferðar í dag en Nýja-Sjáland, með Betsy Hassett úr Stjörnunni innanborðs, tapaði 1:2 fyrir Ástralíu í fyrstu umferð.

Í hinum tveimur leikjunum sem lokið er í dag vann Kanada sigur á Síle, 2:1, og Kína og Sambía skildu jöfn, 4:4.

Barbra Banda hefur farið á kostum með Sambíu og skoraði …
Barbra Banda hefur farið á kostum með Sambíu og skoraði sína aðra þrennu í dag. AFP

Janine Beckie leikmaður Manchester City skoraði bæði mörk Kanada gegn Síle en leikur Kína og Sambíu var einvígi tveggja leikmanna. Shuang Wang skoraði öll fjögur mörk Kínverja og jafnaði í 4:4 úr vítaspyrnu á 83. mínútu. Áður hafði Barbra Banda skorað þrjú mörk í röð fyrir Sambíu og breytt stöðunni úr 1:3 í 4:3 á 27 mínútum.

Banda hefur því skorað tvær þrennur á leikunum en hún gerði öll þrjú mörk Sambíu þegar liðið steinlá fyrir Evrópumeisturum Hollands 3:10 í fyrstu umferðinni. Engin kona hefur áður afrekað slíkt í tveimur leikjum í röð í knattspyrnukeppni á Ólympíuleikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert