Áminnt um dýraafurðir

ESA hefur sent íslenskum stjórnvöldum áminningarbréf.
ESA hefur sent íslenskum stjórnvöldum áminningarbréf. Ljósmynd/ESA

Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, sendi íslenskum stjórnvöldum í dag formlegt áminningarbréf þar sem farið er fram á að eftirlit með inn- og umframflutningi dýraafurða sé framkvæmt í samræmi við reglur Evrópska efnahagssvæðisins en árið 2017 gerði ESA úttekt hér á landi með það fyrir augum að ganga úr skugga um að opinbert eftirlit á þessum vettvangi væri í samræmi við EES-löggjöf. Frá þessu greinir í fréttatilkynningu ESA.

„EES-samningurinn gerir ráð fyrir sameiginlegum landamærum á Evrópska efnahagssvæðinu vegna innflutnings dýraafurða frá ríkjum utan EES. Heilbrigðiseftirlit með dýraafurðum er mikilvægur liður í því kerfi til að tryggja lýðheilsu og dýraheilbrigði innan Evrópska efnahagssvæðisins,“ segir enn fremur í tilkynningunni.

Annmarkar á upplýsingaflæði

Benti ESA á að ekki væri til staðar kerfi sem tryggði að sendingar frá ríkjum utan EES í umflutningi eða  umfermingu færu gegnum heilbrigðiseftirlit í samræmi við EES-löggjöf.

Þá væru annmarkar á samræmingu og upplýsingaflæði milli Matvælastofnunar og Skattsins en ESA gerði sambærilegar athugasemdir eftir úttektir árin 2010 og 2012. Vegna annmarkanna gætu íslensk stjórnvöld ekki tryggt að dýraafurðir í umflutningi og/eða umfermingu hefðu farið í gegnum viðeigandi heilbrigðiseftirlit áður en þær yrðu tollafgreiddar. 

Árið 2020 var gerð reglugerðarbreyting á Íslandi sem skyldaði flutningsaðila til að hafa vörunúmer í farmskrá. Vörunúmerin eru í samræmi við samræmda flokkunarkerfið sem notað er af tollyfirvöldum um allan heim og merkja átti dýraafurðir sem kæmu utan EES með þeim. Með því að nota vörunúmerin hefði Skatturinn verið í betri aðstöðu til að greina hvaða sendingar þyrftu heilbrigðisúttekt og gera MAST viðvart. ESA hafði enn fremur fengið upplýsingar um að Skatturinn væri með áform um að tengja tölvukerfi sín við TRACES-kerfi Evrópusambandsins. 

Reglugerðarbreyting felld úr gildi

Þessar leiðir til úrbóta voru á þeim tíma taldar fullnægjandi. „Reglugerðarbreytingin var hins vegar felld úr gildi árið 2022 og Ísland hefur ekki upplýst um aðgerðir til að bæta samvinnu milli Skattsins og MAST. Þá hefur ESA ekki heldur fengið upplýsingar um það hvort Skatturinn sé kominn með aðgang að TRACES-kerfinu fyrrnefnda,“ segir í tilkynningunni.

Með vísan til framangreinds og fyrirliggjandi upplýsa telji ESA að Íslandi hafi ekki tekist að uppfylla skyldur sínar samkvæmt EES-löggjöf varðandi heilbrigðiseftirlit með sendingum í flutningi. 

Samkvæmt regluverkinu er formlegt áminningarbréf fyrsta skrefið í samningsbrotamáli gegn EFTA-ríki. Nú gefast íslenskum stjórnvöldum tveir mánuðir til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en ESA ákvarðar um hvort málið fari lengra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert