Antonio hetja Hamranna – Leicester vann nýliðana

Michail Antonio fagnar sigurmarki sínu með stæl í dag.
Michail Antonio fagnar sigurmarki sínu með stæl í dag. AFP

Michail Antonio skoraði sigurmark West Ham United gegn Tottenham Hotspur þegar liðin mættust í Lundúnaslag í ensku úrvalsdeildinni í dag. Þá gerði Leicester City góða ferð til Lundúna og hafði betur gegn sprækum nýliðum Brentford.

Mark Antonio kom á 72. mínútu. Aaron Cresswell tók þá hornspyrnu frá vinstri, kom boltanum á nærstöngina þar sem Antonio smeygði sér fram fyrir Harry Kane og kom boltanum í netið með því að fá boltann í sköflunginn.

West Ham fer með sigrinum upp í 4. Sæti deildarinnar, þar sem liðið er með 17 stig eftir níu leiki, á meðan Tottenham fer niður í 6. sæti, tveimur stigum á eftir West Ham.

Í leik Brentford og Leicester byrjuðu heimamenn af miklum krafti og fengu þrjú góð færi áður en Youri Tielemans skoraði nokkurn veginn upp úr þurru með stórglæsilegu skoti á 14. mínútu.

Leicester leiddi með einu marki í hálfleik en eftir klukkutíma leik jafnaði danski miðvörðurinn Mathias Zanka Jörgensen með skalla eftir hornspyrnu landa síns Mathias Jensen.

Á 73. mínútu skoraði James Maddison svo sigurmark Leicester. Þá slapp varamaðurinn Patson Daka í gegn og einn gegn markverði var hann óeigingjarn og renndi boltanum til hliðar á Maddison sem gat ekki annað en skorað af stuttu færi.

2:1 því lokatölur og Leicester fer með sigrinum upp í 9. sæti á meðan Brentford fer niður í 12. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert