Þróttur úr Fjarðabyggð og HK mættust fjórum sinnum

Kvennalið Þróttar úr Fjarðabyggð fagnar stigi um helgina.
Kvennalið Þróttar úr Fjarðabyggð fagnar stigi um helgina. Ljósmynd/Sigga Þrúða

Alls fóru fjórir leikir fram á Neskaupstað, tveir í úrvalsdeild kvenna og aðrir tveir í úrvalsdeild karla í blaki um helgina þegar bæði lið Þróttar úr Fjarðabyggð fengu HK í heimsókn.

Þróttur úr Fjarðabyggð vann 3:0 sigur á HK í kvennaleiknum á laugardag. Leikurinn var þó spennandi, sérstaklega í fyrstu tveimur hrinunum, þar sem þær unnust naumlega, 26:24 og 25:21. Þriðju og síðustu hrinuna unnu heimakonur örugglega, 25:12.

Stigahæst var Ester Rún Jónsdóttir með 14 stig fyrir Þrótt. Paula Miguel de Blaz bætti við 9 stigum fyrir heimakonur.

Stigahæst í liði HK var Lejla Sara Hadziredzepovic með 9 stig.

Í karlaleiknum á laugardaginn vann HK hins vegar 3:0 sigur á Þrótti úr Fjarðabyggð. Hrinurnar unnu gestirnir úr Kópavogi 25:16, 25:17 og 25:18.

Stigahæstir í liði HK voru þeir Hristyan Dimitrov 17 stig og Mateusz Kloska með 14 stig fyrir HK.

Stigahæstur heimamanna var Andri Snær Sigurjónsson með 8 stig.

Sama sagan í dag

Tveir leikir til viðbótar voru leiknir í dag.

Kvennalið Þróttar úr Fjarðabyggð vann þá annan 3:0 sigur í dag og var hann öruggari en í gær þar sem hrinurnar unnust 25:10, 25:18 og 25:19.

Stigahæst hjá Þrótti var María Jiménez með 12 stig og Paula Miguel de Blaz með 11 stig.

Stigahæst í liði HK var Lejla Sara Hadziredzepovic með 12 stig.

Með þessum tveimur sigrum skaust kvennalið Þróttar úr Fjarðabyggð upp fyrir HK í 3. sæti deildarinnar en HK fer niður í 4. sætið.

Karlaleikurinn í dag var meira spennandi en sá í gær en HK vann 3:1 að lokum. HK vann fyrstu tvær hrinurnar, 25:16 og 25:20, áður en Þróttur úr Fjarðabyggð vann þriðju hrinuna 22:25. HK vann svo fjórðu hrinuna örugglega, 25:15.

Stigahæstur i leiknum í dag var Hristyan Dimitrov, sem fór á kostum í liði HK með 33 stig. Liðsfelagi hans Valens Torfi Ingimundarson bætti við 12 stigum.

Stigahæstur heimamanna var José Federico með 11 stig og Miguel Ángel Ramos kom þar á eftir með 10 stig.

Karlalið HK styrkir stöðu sína í 2. sæti deildarinnar með sigrunum tveimur en Þróttur úr Fjarðabyggð er áfram í 4. sæti með jafn mörg stig og KA, en þau eigast við næstkomandi laugardag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert