Guðlaugur Victor lagði upp dramatískt sigurmark

Guðlaugur Victor Pálsson í baráttu við Emre Can í leik …
Guðlaugur Victor Pálsson í baráttu við Emre Can í leik Íslands og Þýskalands í mars. AFP

Guðlaugur Victor Pálsson bar fyrirliðaband Schalke og lagði upp sigurmark liðsins á ögurstundu í 1:0 sigri gegn Hannover í þýsku B-deildinni í knattspyrnu í kvöld.

Fátt virtist ætla að koma í veg fyrir markalaust jafntefli þegar góð fyrirgjöf barst í vítateig Hannover.

Guðlaugur Victor stökk þá manna hæst og stýrði boltanum fyrir fætur pólska varnarmannsins Marcin Kaminski sem skoraði af stuttu færi.

Markið kom á sjöttu mínútu uppbótartíma og örskömmu síðar var leikurinn flautaður af.

Schalke krækti þar með í dýrmæt þrjú stig í toppbaráttu B-deildarinnar þar sem liðið er nú með 19 stig í þriðja sæti, jafnmörg stig og St. Pauli og Jahn Regensburg, en topplið St. Pauli á þó leik til góða.

Fyrirliðinn Guðlaugur Victor lék allan leikinn fyrir Schalke.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert