Setningarathöfnin er hafin í Tókýó

Flugeldar lýsa upp Ólympíuleikvanginn í upphafi setningarathafnarinnar.
Flugeldar lýsa upp Ólympíuleikvanginn í upphafi setningarathafnarinnar. AFP

Setningarathöfn Ólympíuleikanna í Tókýó hófst klukkan 11 að íslenskum tíma, sem er klukkan 20 að kvöldi að japönskum tíma, og hún er óvenjuleg í alla staði og einstök í sinni röð.

Vegna kórónuveirufaraldursins eru engir áhorfendur á þessum glæsilega Ólympíuleikvangi en miðað við hvernig athöfnin fer af stað verður hún mikið sjónarspil.

Allar þátttökuþjóðirnar ganga síðan inn á völlinn fylktu liði, enda þótt sveitirnar verði fámennari en oft áður. Mikið af íþróttafólkinu sem keppir í seinni hluta leikanna mætir ekki til Tókýó fyrr en á síðustu stundu til að eiga sem minnst samskipti við aðra vegna faraldursins.

Grikkir verða fyrstir að venju, enda sú þjóð sem hélt Ólympíuleikana fyrr á tímum. Sveit flóttamanna kemur á eftir þeim en síðan ganga íslensku keppendurnir og þeirra fylgdarlið inn á leikvanginn þar sem Ísland er fyrst þjóða í japanska stafrófinu sem ræður röð þjóðanna.

Dansarar í upphafsatriði setningarhátíðarinnar.
Dansarar í upphafsatriði setningarhátíðarinnar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert