Kristinn í atvinnumennsku til Hollands

Kristinn Pálsson í leik með Grindavík á síðasta tímabili.
Kristinn Pálsson í leik með Grindavík á síðasta tímabili. mbl.is/Árni Sæberg

Körfuknattleiksmaðurinn Kristinn Pálsson er genginn í raðir hollenska félagsins Aris Leeuwarden, sem leikur í BNXT-deildinni, sameiginlegri úrvalsdeild Hollands og Belgíu.

Kristinn, sem er 24 ára gamall framherji, kemur frá Grindavík þar sem hann hefur leikið undanfarin tvö tímabil í efstu deildinni hér á landi.

Hann er uppalinn í Njarðvík en hefur einnig búið á Ítalíu þar sem hann lék í yngri flokkum, auk þess sem hann lék fyrir háskólaliðið Marist Red Foxes í Bandaríkjunum frá 2015 til 2018.

„Ég valdi Aris vegna þess að mér finnst ég vera tilbúinn í næsta skref á ferli mínum og ég tel að Aris sé hinn fullkomni kostur hvað það varðar. Ég hlakka til að spila fyrir Vincent þjálfara og hitta og leika með liðsfélögum mínum,“ sagði Kristinn á samfélagsmiðlum Aris.

Fyrrverandi landsliðsmennirnir Hlynur Elías Bæringsson og Sigurður Ágúst Þorvaldsson léku á sinum tíma með Aris.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert