„Við vorum stórir og með kassann úti“

Ómar virðist taka eftir öllu sem gerist á vellinum. Hér …
Ómar virðist taka eftir öllu sem gerist á vellinum. Hér horfir hann eftir línumanninum um leið og hann sækir að vörninni. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Ómar Ingi Magnússon átti stórbrotinn leik í sókninni og skoraði 10 mörk þegar Ísland skellti Frakklandi 29:21 í mögnuðum leik í MVM höllinni í Búdapest í kvöld í milliriðli I á EM í handknattleik. 

Þegar mbl.is tók Ómar tali þegar hann gekk af velli sagðist Ómar líklega ekki vera búinn að átta sig nægilega vel á því hversu magnaður sigurinn var en virtist leyfa sér að glotta á bak við sóttvarnagrímuna. 

„Þetta var geggjað og ég held að Frakkarnir hafi ekki átt von á þessu þegar þeir vöknuðu í morgun. Við vorum geggjaðir og ég er virkilega stoltur af liðinu og frammistöðunni. Það voru allir frábærir og lögðu sitt af mörkum. Allir voru einbeittir og skarpir í hausnum. Það fór enginn inn í sig eða neitt slíkt. Við vorum stórir og með kassann úti. Það var það stærsta í þessu,“ sagði Ómar Ingi en góðvinur hans Janus Daði Smárason bættist á lista hinna smituðu í dag og Ísland spilaði því með örvhentan leikmann á miðjunni, Viggó Kristjánsson. Smitum heldur áfram að fjölga en samt getur íslenska liðið kreist fram frammistöðu eins og í kvöld. 

Ómar Ingi Magnússon var númeri stærri en ólympíumeistararnir frönsku.
Ómar Ingi Magnússon var númeri stærri en ólympíumeistararnir frönsku. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Þetta var ótrúlegt og ég geri mér örugglega ekki grein fyrir því núna. Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja. Við trúðum því virkilega að við gætum unnið. Það var ekki bara eitthvert tal. Við fórum í leikinn til að vinna og ætluðum að leggja okkur alla fram. Viggó var frábær og einnig þeir sem komu inn í þetta. Ég þarf eiginlega að horfa á leikinn því ég er man ekki eiginlega ekki eftir þessu,“ sagði Ómar Ingi Magnússon í samtali við mbl.is í Búdapest. 

Eftir öll forföllin er Ómar orðinn leikjahæstur í landsliðinu eins og það var skipað í kvöld en hann lék 61. A-landsleikinn. Það telst ekki mikið hjá handboltalandsliðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert