Spila þarf frábæra vörn gegn Dönum

Guðmundur Þ. Guðmundsson á hliðarlínunni ásamt Viggó Kristjánssyni og Sigvalda …
Guðmundur Þ. Guðmundsson á hliðarlínunni ásamt Viggó Kristjánssyni og Sigvalda Birni Guðjónssyni. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Guðmundur Þ. Guðmundsson var mjög ánægður með spilamennskuna í riðlakeppninni á HM í handknattleik og telur að möguleikar séu í stöðunni fyrir Ísland gegn Danmörku í kvöld. 

Spurður um stöðuna á leikmönnum eftir þrjá leiki í riðlakeppninni segir Guðmundur að engin glími við alvarleg meiðsli.

„Það eru engin meiðsli að hrjá menn. Við erum ekki með neinn á sjúkralista vegna meiðsla. En við gerum okkur grein fyrir því að við erum að mæta andstæðingi sem fór mjög létt í gegnum riðlakeppnina sína. Þar fyrir utan hafa þeir fengið einn aukadag í dag því þeir hvíla í tvo daga á meðan við fengum einn dag í hvíld. Þetta er því svolítið ólíkt. Við fórum í gegnum erfiða riðlakeppni sem kostar mikla orku. Það er eins og það er. Við förum að sjálfsögðu á fullu í leikinn engu að síður,“ sagði Guðmundur þegar mbl.is ræddi við hann í gær en þá lá ekki fyrir að þrír leikmenn væru smitaðir í íslenska hópnum. 

Guðmundur Þ. Guðmundsson.
Guðmundur Þ. Guðmundsson. Ljósmynd/Szilvia Micheller

 Hver eru helstu áhersluatriðin þegar menn mæta Danmörku? 

„Þau eru mjög mörg. Í fyrsta lagi þarf að spila frábæra vörn á móti þeim og við þurfum að ná hraðaupphlaupum. Við þurfum að gera vel í sókninni og mér finnst vera möguleikar í stöðunni fyrir okkur. Við höfum verið að spila mjög vel hingað til og vonandi heldur það bara áfram,“ sagði Guðmundur Þ. Guðmundsson landsliðsþjálfari. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert