138 fyrirtæki sett á útilokunarlista

Lífeyrissjóður verslunarmanna er til húsa í húsi verslunarinnar.
Lífeyrissjóður verslunarmanna er til húsa í húsi verslunarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lífeyrissjóður verzlunarmanna, LV, hefur sett alls 138 fyrirtæki á útilokunarlista að því er segir í tilkynningu frá sjóðnum. Þegar hafa verið seldar eignir að virði rúmlega þriggja milljarða króna úr eignasöfnum sjóðsins vegna útilokunarinnar. 

Uppfylla ekki skilyrði um sjálfbærni og ábyrgar fjárfestingar

Ástæðan mun vera sú að starfsemi fyrirtækjanna uppfyllir ekki skilyrði um sjálfbærni og ábyrgar fjárfestingar samkvæmt nýrri heildarstefnu stjórnar LV um ábyrgar fjárfestingar.  Fram kemur að stefnan nái til allra eignasafna sjóðsins.

„Stefna um útilokun er leiðarljós við stýringu eignasafna LV. Útilokunin varðar fyrirtæki sem framleiða tilteknar vörur eða teljast brotleg við tiltekin alþjóðleg viðmið um mannréttindi og viðskiptasiðferði,“ segir í tilkynningunni. 

22 fyrirtækjanna framleiða umdeild vopn

Af þeim 138 fyrirtækjum sem eru á útilokunarlistanum eru 88 fyrirtæki sem vinna kol, olíusand og olíuleir, 13 fyrirtæki í tóbaksframleiðslu, 22 fyrirtæki sem framleiða umdeild vopn (e. controversial weapons) og 15 fyrirtæki sem teljast brjóta gegn „UN Global Compact“. 

Útilokunarlistann má sjá hér.

Þá segir í tilkynningunni að innleiðing stefnunnar taki tíma og því verði enn um sinn að finna fyrirtæki í eignasöfnun lífeyrissjóðsins sem eru á útilokunarlista.

„Framangreind útilokun er hluti af víðtækri stefnumótun stjórnar sjóðsins varðandi ábyrgar fjárfestingar. Afraksturinn er meðal annars tvær nýjar stefnur sem styðja við ábyrga langtímaávöxtun eigna, sjálfbærni og aðgerðir í loftslagsmálum,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK