Sport

Besta íslenska konan tók sér nokkra daga í að jafna sig eftir „stressið“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það voru bara ellefu konur í heiminum betri en Þuríður Erla Helgadóttir í fjórðungsúrslitunum.
Það voru bara ellefu konur í heiminum betri en Þuríður Erla Helgadóttir í fjórðungsúrslitunum. @thurihelgadottir

Þuríður Erla Helgadóttir náði bestum árangri af öllum íslensku konunum í fjórðungsúrslitum undankeppni heimsleikanna í CrossFit.

Þuríður Erla varð í fimmta sæti í Evrópu og í tólfta sæti á heimsvísu sem er flottur árangur.

Hún endaði sex sætum á undan Anníe Mist Þórisdóttur á heimsvísu en var tveimur sætum á undan henni á Evrópulistanum.

Fjórðungsúrslitin tóku vel á enda fimm krefjandi greinar á þremur dögum. Þuríður Erla tók sér nokkra daga í að jafna sig en það var ekki síst hausinn en líkaminn sem þurfti á hvíld að halda.

„Ætla að taka mér frí frá því að mæta í lyftingasalinn í nokkra daga,“ skrifaði Þuríður Erla Helgadóttir á samfélagsmiðla.

„Er að jafna mig eftir fjórðungsúrslitin og það er meira andlegt en líkamlegt. Það er meira stress heldur en áreynsla fyrir líkmann vegna þess að þetta eru bara fimm æfingar á þremur til fjórum dögum,“ skrifaði Þuríður Erla.

„Svo margir hlutir þurfa að ganga upp. Mælingar, upptakan og að þekkja allar reglurnar í tengslum við æfingarnar. Ástæðan er auðvitað að það er mjög erfitt að þurfa að endurtaka æfingu,“ skrifaði Þuríður Erla.

„Ég ætla því að njóta þess að hafa meiri tíma til að slaka á, borða morgunmatinn minn (þú veist ef þú veist), eyða tíma utandyra með strákunum mínum [tveir hundar], teygja vel á, synda og fara í heita og kalda pottinn,“ skrifaði Þuríður Erla eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×