Meistarabanarnir mæta Leipzig

Atletico Madríd er komið í fjórðungsúrslit eftir að hafa slegið …
Atletico Madríd er komið í fjórðungsúrslit eftir að hafa slegið ríkjandi meistara Liverpool úr keppni. AFP

Dregið var í fjórðungs- og undanúrslit Meistaradeildar Evrópu í höfuðstöðvum UEFA rétt í þessu en leikirnir fara allir fram í Portúgal í næsta mánuði. Atlético Madríd, sem sló út ríkjandi Evrópumeistara Liverpool, mætir Leipzig frá Þýskalandi. 

Úrslitin í Meistara- og Evrópudeildinni ráðast í næsta mánuði en fyrirkomulagið verður með óhefðbundnu sniði vegna kórónuveirufaraldursins. Keppnirnar verða hálfgert hraðmót, Meistaradeildin verður spiluð í Lissabon í Portúgal á dögunum 12. til 23. ágúst og Evrópudeildin í fjórum borgum í Þýskalandi 10. til 21. ágúst.

Þá munu liðin aðeins mætast einu sinni í fjórðungs- og undanúrslitum, en ekki tvisvar eins og áður hefur verið. Í einhverjum tilfellum á eftir að klára einvígi liða í 16-liða úrslitum en þeir leikir verða spilaðir 5. og 6. ágúst. Fjórðungsúrslitin verða svo spiluð 12. til 15. ágúst og undanúrslit 18. og 19. Úrslitaleikurinn sjálfur fer fram 23. ágúst í Lissabon.

Fjórðungsúrslitin í Meistaradeildinni
Real Madríd/Manchester City - Lyon/Juventus
Leipzig - Atlético Madríd
Napoli/Barcelona - Chelsea/Bayern München
Atalanta - Paris Saint-Germain

Sigurvegarinn í einvígum Real Madríd - Manchester City og Lyon - Juventus mun mæta sigurvegaranum í einvígum Napoli - Barcelona og Chelsea - Bayern München í undanúrslitunum. Þá mun annað hvort Leipzig eða Atlético Madríd mæta Atalanta eða Paris Saint-Germain í hinni undanúrslitaviðureigninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert