Endurskoða lokun Sigluness

Fyrrum starfsmenn siglingaklúbbsins Sigluness á pöllunum í fundarsal borgarstjórnar.
Fyrrum starfsmenn siglingaklúbbsins Sigluness á pöllunum í fundarsal borgarstjórnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrrverandi starfsmenn siglingaklúbbsins Sigluness í Nauthólsvík stóðu fyrir táknrænum mótmælum fyrir fund borgarstjórnar í Ráðhúsinu í Reykjavík í dag. 

Blásið var í neyðarflautur „þrjú stutt, þrjú löng, þrjú stutt” sem þeirra síðasta neyðarkall um að taka mál Sigluness til skoðunar.

Mótmælin eru til komin vegna þess að í nýlega kynntum hagræðingaraðgerðum borgarinnar stendur til að loka starfseminni sem rekin hefur verið í Siglunesi á sviði lýðheilsu og útimenntunar barna eftir 55 ára starf.

Blásið var í neyðarflautur ,,þrjú stutt, þrjú löng, þrjú stutt”.
Blásið var í neyðarflautur ,,þrjú stutt, þrjú löng, þrjú stutt”. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íþrótta- og tómstundaráð skoðar áætlanirnar

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir í samtali við mbl.is að lokunin verði endurskoðuð og send til íþrótta- og tómstundaráðs (ÍTR). 

„Í þeim tilvikum sem nefnd hafa verið í umræðunni höfum við verið að leita annarra leiða til þess að ná sömu markmiðum. Við sjáum ekki fyrir okkur að það verði siglinganámskeið fyrir börn, heldur var hugmyndin að siglingaklúbbarnir myndu taka þau yfir og þjónusta börnin þannig. Nú hafa verið settar spurningar við hvort að það sé raunhæft, alla vega á svona stuttum tíma,“ segir Dagur.

Dagur heilsaði mótmælendum fyrir utan fundarsal borgarstjórnar.
Dagur heilsaði mótmælendum fyrir utan fundarsal borgarstjórnar. mbl.is/Eggert

Því verði tillagan send til frekari skoðunar hjá íþrótta- og tómstundaráði. 

„Við munum bara bíða niðurstöðu þeirrar skoðunar,“ segir Dagur og bætir við að vonandi sé hennar að vænta snemma á næsta ári.

3.500 skrifað undir

Þannig að það kann að vera að mótmælin beri ávöxt?

„Mér hefur beinlínis fundist bara gaman að finna í raun hvað margir tengja við þetta góða starf sem hefur verið þarna og lýst persónulegri reynslu af því. Við verðum vör við gríðarlegan áhuga á, ekki bara sjósporti, heldur útivist við ströndina sem er svolítið nýtt. Þannig að við erum með stefnumörkun varðandi haftengda upplifun og erum að hugsa um að koma til móts við sjósund og allskonar strandlíf.“

Í tilkynningu frá Siglunesi segir:

Síðastliðna daga hafa um sjötíu fyrrum starfsmanna tekið höndum saman og minnt á það mikilvæga starf sem unnið er í Siglunesi fyrir um þúsund börn ár hvert... Um 3.500 manns hafa skrifað undir undirskriftalista til að mótmæla þessum aðgerðum og fyrrum starfsmenn síðustu þriggja áratuga bent á með margvíslegum hætti hvaða tjón hlytist af þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert