Íslenski boltinn

Mjólkurbikarinn: KR, FH og bikarmeistararnir áfram

Ísak Hallmundarson skrifar
Hólmfríður Magnúsdóttir var í stuði í kvöld.
Hólmfríður Magnúsdóttir var í stuði í kvöld. vísir/daníel

KR, FH og Selfoss hafa tryggt sér sæti í 8-liða úrslitum Mjólkurbikars kvenna eftir sigur í 16-liða úrslitum í kvöld.

KR lagði Tindastól 4-1, en gestirnir frá Skagafirði sem spila í Lengjudeildinni komust óvænt yfir í fyrri hálfleik með marki frá Laufey Hörpu Halldórsdóttur. KR-konur kláruðu leikinn svo í seinni hálfleik. Thelma Lóa Hermannsdóttir og Katrín Ásbjörnsdóttir skoruðu báðar tvö mörk fyrir KR-liðið í 4-1 sigri. 

FH vann nokkuð óvæntan útisigur á Þrótti í Laugardalnum. Andrea Mist Pálsdóttir kom FH yfir á 16. mínútu og fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum, sem lauk með 0-1 sigri FH. FH náði þannig að hefna fyrir tapið gegn Þrótti í Pepsi Max deildinni í síðustu umferð.

Ríkjandi bikarmeistarar Selfoss unnu síðan nokkuð þægilegan 3-0 útisigur á Stjörnunni í Garðabæ. Hólmfríður Magnúsdóttir kom Selfyssingum yfir undir lok fyrri hálfleiks og skoraði síðan annað mark sitt í leiknum á 50. mínútu. Hún fékk kjörið tækifæri til að skora þrennu en misnotaði vítaspyrnu á 63. mínútu. Það kom þó ekki að sök fyrir Selfoss því Dagný Brynjarsdóttir innsiglaði 3-0 sigur á 77. mínútu.

Dregið verður í 8-liða úrslit Mjólkurbikarsins í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport kl. 18 á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×