Tólf vikur á milli Pfizer-skammta í Noregi

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs.
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs. AFP

Stjórnvöld í Noregi hafa ákveðið að tólf vikur skuli líða milli fyrri og seinni sprautu af bóluefni Pfizer fyrir fólk undir 65 ára aldri sem ekki glímir við undirliggjandi sjúkdóma.

Með þessu móti verður hægt að veita yngra fólki fyrri skammt bóluefnisins mun fyrr en áður var áætlað en Norðmenn hafa hingað til látið sex vikur líða milli bólusetninganna. Þrjár vikur eru á milli hér á landi.

Ákvörðunin er tekin eftir ráðleggingu Lýðheilsustofnunarinnar (Folkheleinstituttet). „Í ljósi þess að fyrsti skammtur veitir góða vörn gegn Covid-19 viljum við meina að það sé mikilvægt að tryggja eins mörgum fyrri skammtinn og hægt er,“ segir Geir Bukholm sóttvarnalæknir.

Norðmenn gera nú ráð fyrir að allir fullorðnir muni hafa fengið fyrri skammt bóluefnisins í viku 29 (19.-25. júlí) í stað viku 34 (23.-29. ágúst) eins og áður var áætlað.

Bóluefni AstraZeneca er ekki notað í Noregi og ekki hefur verið tekin ákvörðun um að taka bóluefni Janssen í notkun. Af þeim sökum hefði bólusetningum að óbreyttu lokið síðar í Noregi en á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert