Gylfi afgreiddi Úkraínu í síðasta leik

Gylfi Þór Sigurðsson fagnar eftir að hafa skorað í sigrinum …
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar eftir að hafa skorað í sigrinum gegn Úkraínu árið 2017. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ísland og Úkraína mætast í fimmta skipti í A-landsliðum karla í fótbolta í Wroclaw í kvöld og allir fjórir leikirnir hafa verið jafnir og tvísýnir.

Liðin voru saman í riðli í undankeppni EM 2000 og mættust í tveimur hörkuleikjum árið 1999 en þá blandaði Ísland, undir stjórn Guðjóns Þórðarsonar, sér óvænt í baráttu Frakklands, Úkraínu og Rússlands um sæti í lokakeppninni.

Ísland náði mjög óvæntu jafntefli í fyrri leik liðanna í Kænugarði, 1:1, þar sem Lárus Orri Sigurðsson skoraði mark Íslands. Úkraínumenn komu síðan á Laugardalsvöllinn í gríðarlegan spennuleik um haustið og náðu að knýja fram sigur, 1:0, sem hafði úrslitaáhrif í riðlinum þegar upp var staðið. Frakkland með 21 stig og Úkraína með 20 komust á EM en Rússland með 19 stig og Ísland með 15 sátu eftir.

Síðan voru liðin saman í riðli í undankeppni HM 2018 og þar réðu leikirnir tveir á milli liðanna því endanlega að það var Íslands sem komst í lokakeppnina í Rússlandi, ásamt Króatíu, en Úkraína sat eftir í þriðja sæti riðilsins.

Alfreð skoraði í jafntefli í Kænugarði

Alfreð Finnbogason skorar i leiknum gegn Úkraínu í Kænugarði haustið …
Alfreð Finnbogason skorar i leiknum gegn Úkraínu í Kænugarði haustið 2016. AFP/Sergei Supinsky

Liðin skildu jöfn, 1:1, í fyrri leiknum í Kænugarði, í fyrsta leik undankeppninnar haustið 2016, þar sem Alfreð Finnbogason skoraði mark Íslands á upphafsmínútum leiksins. Af núverandi landsliðsmönnum voru Jóhann Berg og Alfreð í byrjunarliðinu og þeir Sverrir Ingi Ingason og Arnór Ingvi Traustason á bekknum. Arnór kom inn á í leiknum.

Síðan mættust liðin í algjörum lykilleik á Laugardalsvellinum haustið 2017. Ísland vann þar, 2:0, og Gylfi Þór Sigurðsson skoraði bæði mörkin á fyrstu 20 mínútum síðari hálfleiks. Ísland vann riðilinn með 22 stig og Króatía var með 20 stig í öðru sæti en Úkraína sat eftir með 17 stig í þriðja sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert